Staðfesta flutninginn frá Gatwick

Nú er komið á hreint að Stansted flugvöllur verður heimahöfn WOW air í London. Þar reyndi Andri Már Ingólfsson að koma á beinu flugi til Bandaríkjanna í vor en gekk ekki meðal annars vegna samkeppninnar við WOW air.

Þota WOW á Stansted flugvelli í London. Mynd: London Stansted

Í byrjun þessa mánaðar vildu stjórnendur WOW air ekki tjá sig um orðróm þess efnis að félagið hefði selt lendingarleyfi sín á Gatwick flugvelli í London. Nú staðfesta þeir hins vegar að leyfin hafi verið seld en ætla þó ekki að gefa upp hver kaupandinn er né hversu mikið fékkst fyrir leyfin. Hvort það var í raun Indigo Partners, sem nú íhugar kaup á WOW, sem fékk leyfin fæst því ekki uppgefið. En líkt og Túristi greindi frá fyrir hálfum mánuði þá verður WOW að færa leyfið beint yfir á annan flugrekanda. Bandaríska fjárfestingafélagið getur því ekki verið skráð fyrir þeim.

Þannig vill hins vegar til að Indigo Partners á stóran hlut í ungverska lággjaldaflugfélaginu Wizz Air og það félag er einmitt að hefja áætlunarflug til Gatwick frá Búdapest og rúmensku borgunum Búkarest og Cluj nú í vor. Á sama tíma færist starfsemi WOW air í London yfir á Stansted flugvöll.

Frá þeim velli hélt WOW úti sumarflugi til Íslands í ár. Stansted er minni flughöfn en Gatwick og með mun takmarkaðra úrval af flugleiðum og flugfélögum en þekkist á Gatwick. Á þeim síðarnefnda halda nefnilega til mörg af stærstu flugfélögum í heimi enda er hann næstfjölfarnasti flugvöllur Bretlands. Farþegar sem flugu til Gatwick frá Asíu, Afríku eða Eyjaálfu gátu þá flogið áfram til Íslands eða N-Ameríku með WOW. Þessi farþegahópur er mun takmarkaðri á Stansted þar sem stór hluti af umferðinni tengist leiguflugi fyrir ferðaskrifstofur og flugferðum Ryanair.

Þessi takmörkun á Stansted er ein af ástæðum þess að þaðan hefur ekki gengið að halda úti áætlunarflugi til Norður-Ameríku þrátt fyrir nokkrar tilraunir. Sá sem brenndi sig síðast á því var Andri Már Ingólfsson. Flugfélagið hans, Primera air, áformaði að halda uppi reglulegu flugi frá Stansted til Bandaríkjanna og Kanada en varð gjaldþrota nokkrum mánuðum eftir jómfrúarferðina frá Stansted. Segja má að Primera Air hafi fengið harða samkeppni frá WOW air í Stansted með alla sína áfangastaði í Bandaríkjunum. Í júní nýttu til að mynda fleiri farþegar ferðir WOW air en Primera air frá Stansted.

Í ljósi þess sem síðar hefur komið fram um fjármögnunarvanda flugfélaganna tveggja þá má draga þá ályktun að í sumar hafi þeir Andri og Skúli ekki aðeins keppst um farþega á leið milli Stansted og N-Ameríku heldur líka um hylli stjórnenda Arion banka. Andri Már hefur ekki viljað tjá sig um orðróm um að WOW hafi fengið lán frá Arion í sumar á hans kostnað og hefur aðeins sagt það ljóst að Primera Air hafi ekki fengið fyrirgreiðslu.