Svona mikið dýrari eru dvölin í útlöndum orðin

Þó flugmiðar séu í mörgum tilfellum mjög ódýrir þá hefur krónan veikst síðastliðið ár og þar með kostar meira að kaupa sér gistingu, mat og afþreyingu í utanlandsferðinni.

Íslenska krónan hefur veikst um tíund gagnvart bandarískum dollara í ár. Mynd: Matthew Henry / Burst

Það kemur ekkert í veg fyrir að Íslendingar setji nýtt ferðamet í ár þegar litið er til fjölda utanlandsferða. Í lok nóvember höfðu nefnilega jafn margir Íslendingar flogið frá Keflavíkur og allt árið í fyrra og var það metár. Merkilega lág fargjöld hafa örugglega ýtt undir ferðagleðina og auðvitað sterk króna. Gjaldmiðillinn okkar hefur þó verið að gefa eftir undanfarið og munurinn er umtalsverður í sumum tilfellum.

Íslensk króna hefur til að mynda tapað um tíund af verðgildi sínu gagnvart bandarískum dollara síðustu 12 mánuði. Þar með kostar 150 dollara hótelnóttin nú um 2 þúsund krónum meira en á sama tíma í fyrra. Hækkunin í svissneskum frönkum er álíka há eða rétt rúm tíund. Dvöl í evrulandi hefur hækkað aðeins minna því veiking krónu gagnvar evru nemur um 6 prósentum. Það munar þó um þá hækkun og sérstaklega ef dvelja á lengri tíma, t.d. á spænskri sólarströnd.

Danir binda krónuna sína við evru og þar með hefur íslenska krónan veikst um 6 af hundraði gagnvart þeirri dönsku síðastliðið ár. Öðru máli gegnir um Svíþjóð því sænska krónan hefur verið veik allt þetta ár og þar með hefur verðlagið í Svíþjóð eiginlega staðið í stað, í íslenskum krónum, allt þetta ár. Í Noregi hefur dvölin hins vegar hækkað um rúm fimm prósent og sömu sögu er að segja um breska pundið eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.