Þriðjungi fleiri Bandaríkjamenn í jólaferð til Íslands

Evrópsk ferðaþjónusta nýtur góðs af ferðagleði Bandaríkjamanna og það á sérstaklega við nú í lok árs.

Jólaferðum Bandaríkjamanna til Íslands fjölgar hratt. Mynd: Nicolas J Leclercq / Unsplash

Um fimmtungi fleiri Bandaríkjamenn voru á ferðinni í Evrópu í desember í samanburði við sama tíma í fyrra samkvæmt samantekt tryggingafyrirtækisins Allianz. Og þó London sé áfram sú borg sem laðar til sín flesta bandaríska ferðamenn þá er ásóknin í aðrar borgir að aukast hratt. Þannig stefndi í að heimsóknum Bandaríkjamanna til Lissabon yrðu tvöfalt fleiri í jólamánuðinum og um helmingi fleiri ætluðu til Zurich og Barcelona. Ísland er svo í sjötta sæti á lista Allianz yfir þær evrópsku borgir þar sem vöxturinn í jólaferðum Bandaríkjamanna er mestur.

Gangi þessi spá tryggingafyrirtækisins eftir þá hafa um 36 þúsund bandarískir ferðamenn komið hingað til lands í desember. Hvort það reynist rétt kemur í ljós fljótlega eftir áramót þegar Ferðamálastofa birtir talningu sína á ferðafólki. Til samanburðar þá fjölgaði bandarískum ferðamönnum um 8 prósent hér á landi í desember í fyrra.

Hafa ber í huga að talningin fer fram við brottför og allir þeir sem heimsækja Ísland um áramót eru því fyrst taldir í janúar.

Þær evrópsku borgir þar sem vöxturinn í jólaferðum Bandaríkjamanna er mestur:

  1. Lissabon: 103,2%
  2. Zurich: 54,8%
  3. Barcelona: 50,2%
  4. París: 42,7%
  5. Mílanó: 37,4%
  6. Ísland: 36,6%
  7. Feneyjar: 34,2%
  8. London: 31,6%
  9. Amsterdam: 22,5%
  10. Munchen: 19,6%