Vægi íslenskra ferðamenn eykst á spænskum sólarströndum

Forstjóri Úrval-Útsýnar á von á áframhaldandi ferðagleði Íslendinga á næsta ári.

Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval Útsýnar, ver áramótunum í Alicante. „Hér er dásamlegt að vera á þessum tíma árs og veðrið eins og á góðum degi í júlí heima á Íslandi.”

„Það gekk vel í ár og ég á von á því að 2019 verði svipað eða jafnvel betra. Landinn mun halda áfram að sækja í sól og ferðast um heiminn,” segir Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval-Útsýnar. Ferðaskrifstofan er ein sú stærsta hér á landi og nýtur því góðs af mikilli ferðagleði Íslendinga. Árið í ár verður nefnilega metár þegar kemur að fjölda íslenskra farþega í Leifsstöð.

Það eru þó ekki bara innlendar ferðaskrifstofur sem finna fyrir hinni miklu útrás Íslendinga því vægi okkar í ferðamannaflórunni á Spáni hefur aukist í ár. Það skrifast þó einnig á fækkun ferðamanna frá nágrannalöndunum. „Hið heita sumar í Evrópu hefur dregið úr sólarlandaferðum Skandinava og Breta á sama tíma og íslensku ferðafólki hefur fjölga umtalsvert á Spáni. Þessi þróun hefur því styrkt samningstöðu íslenskra ferðaskrifstofa á hótelum við vinsælar sænskar sólarstrendur.”

Þórunn dregur þó ekki dul á að sviptingar í flugsamgöngum hafi sett strik í reikninginn síðustu mánuði. Í byrjun október varð Primera air gjaldþrota en flugfélagið var stórtækt í sólarlandaflugi fyrir íslenskar ferðaskrifstofur. Staða WOW air er svo ennþá óljós og segir Þórunn að Úrval-Útsýn hafi af þessum sökum samið við Icelandair um flug til sólarlanda á næsta ári, til að mynda til Tenerife , Almería Las Palmas og Alicante. „Við erum sérstaklega ánægð með þjónustu Icelandair sem við treystum til að fljúga með okkar farþega í sólina á næsta ári.“

Þó áfram skipuleggi stór hluti ferðafólks sín frí sjálf á netinu á segir Þórunn það færast í vöxt á ný að fólk bóki flug og hótel í gegnum ferðaskrifstofur. „Það fylgir því öryggi og þægindi að bóka ferðalagið í gegnum ferðaskrifstofu eins og okkar. Sérstaklega í samanburði við margar af þeim erlendu ferðaskrifstofum sem koma efst upp í leitarvélum.“