10 fjölförnustu flugvellir Norðurlanda

Þrátt fyrir að vöxturinn hafi verið aðeins minni en gert var ráð fyrir þá er Keflavíkurflugvöllur áfram á sínum stað á topplistanum.

kef farthegar
Frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mynd: Isavia

Síðustu ár hefur Flugstöð Leifs Eiríkssonar verið hástökkvarinn á listanum yfir stærstu norrænu flugstöðvarnar þegar litið er til fjölda farþega. Leifsstöð skaust fram úr Billund og Bromma árið 2014 og varð svo stærri en flugstöðvarnar í Þrándheimi og Stavanger ári síðar. Síðan fór sú íslenska upp fyrir Flesland í Bergen og Landvetter í Gautaborg og komst upp í fimmta sætið á topplistanum árið 2016.

Þar situr Leifsstöð þriðja árið í röð og verður þar væntanlega um langt árabil. Því eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan er langt upp í fjórða sætið og eins þyrfti samdráttur að vera verulegur svo Keflavíkurflugvöllur færi niður fyrir Landvetter á ný.

Vöxturinn á Keflavíkurflugvelli í fyrra var þó minni en upphaflega var reiknað með. Fyrsta spá Isavia gerði nefnilega ráð fyrir að farþegafjöldinn færi í fyrsta sinn yfir 10 milljónir og myndi enda í 10,4 milljónum. Niðurstaðan varð hins vegar 9,8 milljónir og fyrstu mánuði  þessa árs er búist við samdrætti sem skrifast á minnkandi umsvif WOW air.

Þar með stefnir í að metið sem sett var á nýliðnu standi í einhvern tíma og bið verði eftir því að farþegafjöldinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar verði mældur í 8 stafa tölu. Þess má geta að farþegar í innanlandsflugi eru  umtalsverður hluti af traffíkinni á hinum níu flugvöllunum á listanum hér fyrir neðan.