Á annan tug tilboða í Icelandair hótelin

Stefnt er því að ljúka sölu á næst stærsta hótelfyrirtæki landsins fyrir lok vetrar.

Canopy by Hilton í miðborg Reykjavíkur er rekið af Icelandair hótelunum. Mynd: Icelandair hótelin

Það tíðkast ekki lengur að flugfélög séu stórtæk í hótelrekstri en hér heima hafa stjórnendur flugfélaga farið á móti straumnum. Icelandair á til að mynda næst stærsta hótelfyrirtæki landsins og eigandi WOW hefur staðið í gistihúsarekstri til hliðar við alþjóðaflugið. Síðastliðið vor tilkynntu þó forsvarsmenn Icelandair Group að nú yrðu hótel samstæðunnar seld og rann fyrri tilboðsfrestur í reksturinn út skömmu fyrir jól.

Í ljós kom að áhuginn á hótelunum er töluverður því samkvæmt upplýsingum frá Icelandair bárust á annan tug tilboða. „Í því felst ákveðin viðurkenning á því uppbyggingarstarfi sem hefur átt sér stað hjá Icelandair Hotels undanfarin ár,“ segir í svari fyrirtækisins við fyrirspurn Túrista. Í svarinu segir jafnframt að stefnt sé að því að niðurstaða liggi fyrir undir lok fyrsta fjórðungs ársins.

Ekki fékkst svar við því hvort tilboðin hafi verið í takt við væntingar né heldur hvort í hópi tilboðsgjafa hafi verið fjárfestar frá Asíu. En orðrómur eru uppi um áhugsama kínverskra kaupendur að Icelandair hótelunum.