Afhending á þotunum á áætlun

Flugfélagið Air Canada tekur á næstunni við fjórum 200 sæta Airbus þotum frá WOW air.

TF-MOM er ein af þotunum fjórum sem hverfa nú úr flugflota WOW air. Mynd: WOW air

„Vélarnar verða afhentar Air Canada ein af annarri á næstu dögum og vikum,“ sagði Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, í byrjun síðustu viku aðspurð um ástæður þess að þoturnar fjórar, sem WOW seldi til Air Canada, höfðu þá staðið í um hálfan mánuð á Keflavíkurflugvelli. Nú eru þrjár vikur liðnar frá því að þotunum var síðast flogið og samkvæmt svörum frá Air Canada er nú verið að framkvæma síðustu skoðanir á vélunum og leggja lokahönd á pappírsvinnuna í tengslum við kaupin.

Það er því útlit fyrir að TF-DAD, TF-MOM, TF-KID og TF-SON verði flogið yfir hafið til Kanada fyrr en síðar en tilkynnt var um söluna á vélunum fjórum til kanadíska flugfélagsins rétt fyrir jól. Í tilkynningunni kom fram að sjóðstaða WOW air muni batna um 12 milljónir Bandaríkjadala með þessari sölu en upphæðin jafngildir um 1,4 milljarði króna.

Hvorki WOW air né Arion veita svör um hvort bankinn eigi kröfu á hluta af söluhagnaði af flugvélasölunni en Arion er viðskiptabanki flugfélagsins sem rekið hefur verið með umtalsverðu tapi síðustu tvö ár.