Arctic Adventures og Into the Glacier sameinast

Samanlögð velta fyrirtækjanna árið 2018 var tæplega 7 milljarðar króna og hjá þeim starfa um 300 manns. Arctic Adventures mun samhliða kaupa hlut í fjórum afþreyingarfyrirtækjum.

Myndir úr starfsemi sameinaðs félags.

Arctic Adventures, eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins á sviði afþreyingar, og Icelandic Tourism Fund  hafa gert samkomulag um sameiningu Into the Glacier ehf. og Arctic Adventures. Icelandic Tourism Fund selur Arctic Adventures einnig hlut í fjórum afþreyingarfyrirtækjum í ferðaþjónustu sem eru með starfsemi víðsvegar um landið; Óbyggðasetrinu í Fljótsdal, Raufarhólshelli, Borea Adventures á Ísafirði og leiksýningunni „Icelandic Sagas – The greatest hits“ sem sýnd er í Hörpu.

Í tilkynningu segir Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Arctic Adventures, að markmið félagsins sé að skapa öflugt og samkeppnishæft félag sem er betur í stakk búið til að takast á við þá alþjóðlegu samkeppni sem íslensk ferðaþjónusta á í. „Afþreying fyrir ferðafólk er lykilþáttur í íslenskri ferðaþjónustu og eiga fyrirtækin í þessum geira í sívaxandi alþjóðlegri samkeppni. Með sameiningu við Into the Glacier og kaupum í fjórum öðrum fyrirtækjum getur Arctic Adventures nú boðið upp á þjónustu í beinu samstarfi við ferðþjónustuaðila í öllum landshlutum sem skiptir okkur miklu máli.“

Helgi Júlíusson framkvæmdastjóri Icelandic Tourism Fund segir að þessi viðskipti nú séu í takt við markmið sjóðsins um að byggja upp öflug ferðaþjónustufyrirtæki á sviði afþreyingar sem boðið geta fjölbreytta þjónustu og styrkt Ísland sem ferðamannastað allt árið um kring. „Samþætting þeirra félaga sem í hlut eiga mun án efa styrkja samkeppnishæfni þeirra og skapa þeim sterkari stöðu á alþjóðlegum markaði.“

Samkomulagið um sameiningu Arctic Adventures og Into the Glacier felur í sér að Arctic Adventures hf. kaupir alla hluti í Into the Glacier ehf. af Icelandic Tourism Fund (ITF) og Sigurði Skarphéðinssyni framkvæmdastjóra Into the Glacier. Kaupverðið er greitt með hlutum í Arctic Adventures hf. sem þýðir að við sameininguna verða ITF og Sigurður Skarphéðinsson hluthafar í sameinuðu félagi. Viðskiptin byggja á mati fyrirtækjaráðgjafar Kviku á verðmæti fyrirtækjanna.

Arctic Adventures hefur einnig gert samkomulag við ITF um kaup á hlutum sjóðsins í fjórum afþreyingarfyrirtækjum í ferðaþjónustu. Það eru Óbyggðasetrið ehf. sem rekur Óbyggðasetrið í Fljótsdal, Raufarhóll ehf. sem starfrækir ferðaþjónustu í Raufarhólshelli, Skútusiglingar ehf. á Ísafirði sem rekið er undir vörumerkinu Borea Adventures og Welcome Entertainment ehf. sem á og rekur leiksýninguna „Icelandic Sagas – The greatest hits“ sem sýnd er í Hörpu. Kaupverðið er greitt með hlutum í Arctic Adventures. Félögin verða áfram rekin sjálfstætt en í nánu samstarfi við Arctic Adventures.

Ofangreint er gert með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, niðurstöðu áreiðanleikakönnunar á fyrirtækjunum og í ákveðnum tilvikum samþykki annarra hluthafa í fyrirtækjunum. Viðskiptavinir Arctic Adventures voru 250.000 í fyrra og 63.000 manns heimsóttu íshellinn.