Bestu og verstu flugfélög Bandaríkjanna árið 2018

Átta stærstu flugfélög Bandaríkjanna eru hér vegin og metin í nokkrum flokkum. Niðurstaðan var nokkuð afgerandi á toppi og botni listans.

Delta flýgur hingað frá JFK flugvelli í New York allt árið og frá Minneapolis á sumrin. Mynd: Delta Air Lines

Þegar litið er til stundvísi, aflýstra flugferða, fjölda kvartana, týnds farangurs og ofbókana þá stendur Delta flugfélagið best allra flugfélaga í Bandaríkjunum. Þetta sýna niðurstöðu árlegrar úttektar Wall Street Journal á bestu og verstu flugfélögunum vestanhafs. Í öðru sæti er Alaska Airlines og í því þriðja er lággjaldaflugfélagið Soutwest.

Af þessum þremur er Delta það eina sem stundar Íslandsflug frá Bandaríkjunum en það gera líka United og American Airlines. Þau tvö komust hins vegar aðeins í sjötta og sjöunda sætið á listanum.

Síðasta ár var hins vegar ekki gott ár hjá Frontier flugfélaginu þegar kom að stundvísi, óánægðum viðskiptavinum og týndum farangri og flugfélagið var því í neðsta sæti í nær öllum þeim þáttum sem Wall Street Journal horfði til eins og fram kemur í myndabandinu hér fyrir neðan. Frontier er í eigu Indigo Partners sem núna skoða kaup á stórum hlut í WOW air.