Boltinn hjá Indigo Partners

Það fékkst samþykki meirihluta skuldabréfaeigenda í WOW air og þar með hefur Indigo Partners 6 vikur til að gera upp hug sinn varðandi þátttöku sína í flugfélaginu.

Mynd: London Stansted

Forsenda fyrir fjárfestingu Indigo Partners í WOW air var að eigendur skuldbréfa í félaginu samþykktu framlengingu á bréfunum og féllu um leið frá áskriftarétti á hlutafé. Þetta samþykki fékkst samkvæmt tilkynningu sem WOW air birti rétt í þessu á heimasíðu sinni. Frestur sem eigendur skuldabréfanna höfðu til að hafna eða samþykkja breytingunum rann út seinnipartinn í gær.

Áður hefur komið fram að þetta samþykki skuldabréfaeigenda gildi fram til 28. febrúar. Indigo hefur þá næstu 6 vikur til að ganga frá fjárfestingu sinni í WOW air en samningaviðræður Skúla Mogensen, eiganda WOW, við bandaríska fjárfestingafélagið hófust opinberlega í lok nóvember.