Borgirnar sem þú getur flogið beint til fram á vorið

Vetraráætlun Keflavíkurflugvallar hefur tekið umtalsverðum breytingum síðustu vikur og úrvalið hefur dregist saman.

flugtak 860 a
Mynd: Isavia

Í haustbyrjun birti Túristi yfirlit yfir allt áætlunarflug vetrarins en stuttu síðar fór Primera Air á hausinn og svo stokkaði WOW air upp leiðakerfi sitt í haust og aftur nú fyrir jólin. Af þessum sökum er gert ráð fyrir færri farþegum í Leifsstöð á fyrsta fjórðungi ársins samkvæmt nýrri spá Isavia. Þessi samdráttur hefur líka haft þau áhrif að áfangastaðirnir eru færri og samkeppni á nokkrum flugleiðum hefur minnkað eða horfið.

Núna er Icelandair til að mynda eitt um flugið til Stokkhólms og San Francisco og Norwegian er eini valkosturinn ef leitað er eftir beinu flugi til Barcelona. Ef ferðinni er heitið til Edinborgar þá er easyJet eina flugfélagið sem flýgur héðan til skosku höfuðborgarinnar.

Borgirnar sem hverfa á vetraráætluninni núna í byrjun árs eru Los Angeles, Nýja-Delí og St. Louis og vetrarflug WOW til Mílanó verður ekki starfrækt mikið lengur. Í lok mars hefst svo sumaráætlunin og endanleg útfærsla á henni liggur ekki ennþá fyrir. En þeir sem ætla að ferðast í janúar, febrúar eða mars hafa úr töluverðu að moða eins og sjá má.