Eigandi skuldabréfa í WOW flytur fjármagn úr landi

Það styttist í úrslitastund hjá WOW air þar sem fresturinn til að samþykkja skilmálabreytingar skuldabréfa rennur út í næstu viku. Einn stærsti eigandi skuldabréf í félaginu hefur síðustu daga verið að koma fé úr landi.

Mynd: London Stansted

Eftir átta daga rennur úr frestur þeirra sem keyptu skuldabréf í WOW air í haust til að fallast á breytta skil­mála­ bréfanna. Þessar breytingar fela meðal annars í sér afsal á mögulegum eignarhlut í félaginu og afléttingu á veðum. Hverjir það eru sem eiga skuldabréf í WOW air liggur ekki fyrir en Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, gaf út að hann hafi keypt bréf fyrir 5,5 milljónir evra. Sjóðir á vegum Gamma munu hafa fjárfest fyrir 2 milljónir evra og heimildir Fréttablaðsins hermdu að bandaríska fjárfestingafyrirtækið Eaton Vance hafi keypt fyrir 10 milljónir evra. ­­Samtals voru gefin út skuldabréf fyrir á bilinu 50 til 60 milljónir evra eða allt að rúmum 8 milljörðum króna.

Eaton Vancen var í sumar, samkvæmt úttekt Fréttablaðsins, umsvifa­­mesti erlendi fjár­­­fest­ir­inn hér á landi og í hópi tutt­ugu stærstu hlut­hafa í fjöl­­mörgum skráðum félög­­um. Forsvarsmenn bandaríska sjóðsins munu þó vera allt annað en ánægðir með fjárfestingu sína í skuldabréfum WOW air og hvernig stjórnendur flugfélagsins stóðu að upplýsingagjöf í aðdraganda útboðsins. Staða WOW hafi verið verri en gefið var út og til marks um það hafi WOW leitað á náðir Icelandair aðeins 6 vikum eftir að útboði lauk.

Fulltrúar Eaton Vance létu óánægju sína með allt ferlið skýrt í ljós á fundi skuldabréfaeigenda nýverið samkvæmt heimildum Túrista og munu þeir vera að kanna réttarstöðu sína vegna málsins. Kjarninn sagði svo frá því í gær að sala Eaton Vance á íslenskum skulda-  og verðbréfum væri megin ástæða þess að Seðlabankinn hefur síðustu daga þurft að vinna gegn veik­ingu krón­unnar með gjaldeyriskaupum.

Samkvæmt skilmálum skuldabréfa WOW er aðeins hægt að gera breytingar á þeim ef samþykki fæst hjá eigendum að tveimur þriðju hluta útgáfunnar. Eaton Vance situr á allt að fimmtungi bréfanna og afstaða forsvarsfólks sjóðsins til skilmálabreytinganna hefur því mikið að segja. Þessi skertu réttindi eigenda skuldabréfanna eru svo forsenda fyrir fjárfestingu Indigo Partners í WOW air. Það er því mikið í húfi.