Fjórðungi fleiri flugu með WOW

Árið 2018 var metár hjá WOW bæði þegar litið er til fjölda farþega og sætanýtingar.

Einn af þeim nýju áfangastöðum sem WOW opnaði í fyrra var London Stansted. Frá og með vorinu verður sá flugvöllur eina heimahöfn WOW í bresku höfuðborginni. Mynd: London Stansted

Vöxtur WOW air hélt áfram í fyrra þó hægt hafi á honum þegar líða tók á árið. Í heildina flutti félagið 3,5 milljónir farþega sem er álíka fjöldi og flaug með Icelandair allt árið 2016. Í tilkynningu frá WOW segir að meðalsætanýting í fyrra hafi verið hærri en áður eða 90 prósent.

Hún fór þó úr 88 prósentum niður í 81 prósent í desember sem, styður þá kenningu að óróinn í kringum WOW air sé helsta ástæða þess að í lok síðasta árs hafi sætanýtingin hjá Icelandair verið meiri en undanfarin ár. Íslendingar, sem eru mest meðvitaðir um óvissuástandið í kringum WOW, hafi því frekar sótt í flug hjá Icelandair en WOW í lok árs.