Fleiri óseld sæti í farþegarýminu

Staða eins helsta samkeppnisaðila íslensku flugfélaganna fer hratt versnandi.

norwegian vetur
Fimmta hvert sæti í þotum Norwegian í desember var tómt. Mynd: Norwegian

Hin síversnandi staða Norwegian er umtöluð í norrænu viðskiptapressunni enda hafa óveðurskýin hrannast upp hjá flugfélaginu síðustu misseri eins og hér var rakið. Forsvarsmenn þess hafa þó lítið tjáð sig um málin síðustu vikur en rufu óvænt þögnina á aðfangadag og boðuðu sparnaðaraðgerðir sem skila eiga kostnaðarlækkunum upp á um 2 milljarða norskra króna. Það jafngildir um 27 milljörðum íslenskra króna.

Í morgun var svo komið að kynningu á flutningatölum Norwegian fyrir síðasta mánuð og samkvæmt þeim þá versnaði sætanýtingin hjá flugfélaginu umtalsvert. Fór hún niður í tæp 79 prósent sem er 6 prósentustiga lækkun frá því í desember 2017. Það þýðir að um fimmta hvert sæti var autt um borð hjá Norwegian í síðasta mánuði og það er almennt talið vera of hátt hlutfall hjá lággjaldaflugfélagi eins og Norwegian.

Meðalfargjaldið hjá flugfélaginu hækkaði þó um 4 prósent en hins vegar lækkuðu tekjur á hvern floginn kílómetra um sama hlutafall. Í grein norska viðskiptablaðsins Dagens Næringsliv er uppgjör Norwegian sagt vera enn eina vísbendinguna um versnandi hag Norwegian sem hefur meðal annars tapað um 1,8 milljarði norskra króna, um 25 milljörðum íslenskra króna, á framvirkum kaupsamningum á þotueldsneyti. Samningarnir voru gerðir þegar olíuverðið var hvað hæst í haust en síðan þá hefur það fallið hratt.

Norwegian hefur jafnframt þurft að afskrifa eign sína í Norwegian bankanum umtalsvert síðustu mánuði og hefur það haft slæm áhrif á eiginfjárstöðu flugfélagsins. Telja greinendur því stefna í að eigið fé flugfélagsins fari undir það lágmark sem lofað var í síðasta skuldabréfaútboði félagsins.

Norwegian flýgur í dag til Íslands frá Spáni, Noregi og Ítalíu en síðasta ferð félagsins milli Stokkhólms og Keflavíkurflugvallar verður farin síðar í þessari viku. Félagið er jafnframt umsvifamesta lággjaldaflugfélagið í áætlunarferðum milli Evrópu og N-Ameríku og sú almenna lækkun sem orðið hefur á fargjöldum milli heimsálfanna er oftast rakin til þessara miklu umsvifa Norwegian.