Flugfreyjur og flugþjónar taka við þjórfé

Farþegar Frontier geta nú borgað aukalega fyrir veitingarnar um borð ef þeir eru ánægðir með þjónustuna. Ekki eru allir sáttir við þessa nýjung og samkeppnisaðilar Frontier hafa ekki fylgt fordæminu.

Farþegar Frontier geta nú gefið þjórfé ef þeir eru ánægðir með þjónustuna um borð. Mynd: Sam Truong Dan / Unsplash

Það er löng hefð fyrir því vestanhafs að viðskiptavinir matsölustaða borgi þjónustufólkinu aukalega fyrir afgreiðsluna. Þess háttar hefur ekki viðgengist í flugvélum jafnvel þó þar þurfi orðið í flestum tilfellum að borga fyrir veitingar. Helsta ástæðan er kannski  sú að löngum hefur verið litið svo á að flugliðar væru fyrst og fremst í farþegarýminu til að gæta öryggis farþega. Afgreiðsla á veitingum væri í raun aukaverkefni sem stéttin sinnir.

Eðli flugfreyjustarfsins horfir þó öðruvísi við stjórnendum lággjaldaflugfélagsins Frontier sem hafa síðustu þrjú ár boðið farþegum að láta fé af hendi rakna til áhafnarinnar þegar greitt er fyrir veitingar og annan varning um borð. Og reglan hefur verið sú að allt sem safnast fer í sameiginlegan sjóð allra flugliða flugfélagsins.

Á þessu varð hins vegar breyting um áramótin og nú er þjórféð eyrnamerkt þeirri flugfreyju eða flugþjóni sem rukkar farþegann fyrir veitingarnar. Haft er eftir talsmanni Frontier, í grein Bloomberg, að þetta sé aðeins valkostur sem boðið er uppá og margir farþegar nýti sér. Engum beri skylda til að bæta við þjórfé. Á það er bent í grein Bloomberg að helstu samkeppnisaðilar Frontier vestanhafs, lággjaldaflugfélögin Spirit og Allegiant, hafi ekki fylgt fordæminu.

Sara Nelsson, formaður verkalýðsfélags flugliða, er heldur ekki hrifin af þjórfé í farþegarýminu. Vill hún meina að stjórnendur Frontier hafi telft fram þessum valkosti á sínum tíma til að draga úr samstöðu meðal flugliða þegar kjarasamningar voru í bígerð. Tveimur árum síðar eru samningarnir ennþá ófrágegnir og í lok síðasta árs greiddi meirihluti flugliða Frontier atkvæði með verkfalli.

Þess má geta að Frontier flugfélagið er í eigu Indigo Group sem nú skoðar kaup á umtalsverðum hlut í WOW air.