Flugumferðin í desember stóð nærri því í stað

Þó hlutdeild Icelandair á Keflavíkurflugvelli hafi aukist í síðasta mánuði þá er hún langt frá því sem áður var. Vægi WOW drógst lítillega saman.

kef icelandair wow
Íslensku flugfélögin tvö stóðu fyrir rúmlega 7 af hverjum 10 áætlunarferðum frá Keflavíkurflugvelli í desember. Myndir: Isavia, Icelandair og WOW

Að jafnaði voru farnar rétt um 60 áætlunarferðir á dag frá Keflavíkurflugvelli í nýliðnum desember. Var þetta aukning um tæpa eina ferð á dag frá því í desember í hittifyrra samkvæmt talningum Túrista. Keflavíkurflug Air Iceland Connect frá Akureyri er inní þessum tölum en þær ferðir eru aðeins í boði fyrir þá farþega sem millilenda við Leifsstöð á leið til eða frá útlöndum.

Sem fyrr er Icelandair umsvifamest í alþjóðafluginu þegar litið er til fjölda flugferða. Hlutdeild félagsins jókst í desember en hafði lækkað umtalsvert árin á undan eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan. Ferðafjöldinn jókst um 7 prósent hjá Icelandair en drógst saman um nærri þrjá af hundraði hjá WOW. Gera má ráð fyrir þónokkuð meiri samdrætti hjá því síðarnefnda á næstunni í takt við boðaðan niðurskurð.

Af erlendu flugfélögum þá er easyJet langstærst með nærri því þrisvar sinnum fleiri áætlunarferðir en Wizz Air sem er var næststærst af þeim flugfélögum sem ekki eru með starfsstöð á Íslandi.