Framtíð WOW í höndum skuldabréfaeigenda

Í bréfi til fjárfesta í skuldabréfaútboði WOW air ítrekar Skúli Mogensen að breytingar á skilmálum bréfanna séu „algjör forsenda" fyrir fjárfestingu Indigo Partners í flugfélaginu

Mynd: London Stansted

„Það er mat WOW að með samþykki á þessum breytingum verði hagmunum skuldabréfaeigenda, starfsmanna, birgja og annarra hagsmunaaðila best borgið til lengri tíma.“ Á þessum orðum endar bréf Skúli Mogensen, forstjóra og eiganda WOW air, til skuldabréfaeigenda sem birt var á heimasíðu félagsins í dag. Er bréfið einskonar útskýring á því tilboði sem skuldabréfaeigendum var kynnt þann 14. desember. Þar var farið fram á að eigendur bréfanna afsöluðu sér meðal annars rétti á eignarhlut í flugfélaginu auk þess sem fleiri breytingar verða gerðar á skilmálum.

Skuldabréfaeigendur hafa haft rúmar þrjár vikur til að taka afstöðu til tilboðsins en frestur til að gefa endanlegt svar rennur út á fimmtudaginn í næstu viku. Samkvæmt skilmálum skuldabréfanna þurfa eigendur að tveimur þriðja hluta útgáfunnar að samþykkja breytingarnar og eru viðmælendur Túrista sammála um að Skúli hefði ósennilega sent út bréfið í dag ef hann teldi nægan stuðning vera við skilmálabreytinguna. Orðalag bréfsins styður þessa kenningu því þar er kveðið fremur fastara að orði en í tilboðinu sem birt var 14. desember. Samþykkt skilmálabreytinganna er til að mynda sagt „algjört skilyrði“ (firm condition) fyrir fjárfestingu Indigo Partners í WOW air. Jafnframt er það tekið fram að það sé ekki valkostur að gefa aðeins eftir hluta af núverandi réttindum.

Líkt og Túristi greindi frá í morgun, áður en bréfið til skuldabréfaeigenda var birt, þá munu fulltrúar bandaríska verðbréfasjóðsins Eaton Vance vera mjög ósáttir við fjárfestingu sína í skuldabréfum í WOW air. Staða flugfélagsins hafi verið mun verri en gefið var í skyn í aðdraganda skuldabréfaútgáfunnar. Eaton Vance situr líklega á allt að fimmtungi af skuldabréfaflokknum og gæti því haft töluverð áhrif niðurstöðu skilmálabreytinga en þó ekki úrslitaáhrif nema í félagi við fleiri eigendur skuldabréfa.

Sem fyrr segir er samþykkt á breytingum á skilmálum skuldabréfanna forsenda fyrir fjárfestingu Indigo Partners. Í  bréfi dagsins kemur fram að bandaríska fjárfestingafélagið muni veita WOW air nægjanlegt fjármagn til endurreisnar í formi breytanlegra lána og muni hlutdeild Indigo Partners nema allt að 49 prósentum. Reglur hér á landi heimila ekki að aðilar utan EES svæðisins fari með meirihluta í íslensku flugfélagi. Sömu reglur gilda í öðrum EES löndum og hefur Indigo Partners komist framhjá þessari kvöð með því að binda eignarhald sitt í ungverska flugfélaginu Wizz Air í breytanlegum skulda- og hlutabréfum í stað hefðbundinni hlutabréfa.