Hríðlækkað verð á rútumiðum til og frá Leifsstöð

Undir lok árs fór verðið hjá Airport Direct niður um þriðjung og stjórnendur Airport Express lækkuðu líka. Áfram kostar þó það sama í ferðir Flugrútunnar.

Isavia fær 41,2% af tekjum Flugrútunnar af sætaferðum frá Leifsstöð og þriðjung af tekjum Airport Direct.

Nú er tæpt ár síðan að Airport Direct, sem eru í eigu Hópbíla, fékk aðgang að stæðunum fyrir framan Flugstöð Leifs Eiríkssonar í kjölfar útboðs Isavia. Þá voru sætaferðir fyrirtækisins milli flugstöðvarinnar og Reykjavíkur dýrari en þekkst hafði hjá Flugrútunni og Airport Express, helstu samkeppnisaðilunum. Stakur miði kostaði þá 2.990 krónur en fljótlega fór Airport Direct að bjóða sætin á 2.390 krónur en eingöngu á þeim tímum sólarhringsins þar sem umferðin er minni.

Sætaferðir Airport Direct í sumarlok voru þó ekki vel nýttar líkt og athugun Túrista leiddi í ljós. Þá sátu jafnan aðeins örfáir farþegar um borð á meðan Flugrútan, sem Kynnisferðir reka, ók nærri fullfermd til og frá flugstöðinni. Rútur fyrirtækjanna tveggja standa hlið við hlið við komusal Leifsstöðvar en á fjarstæði heldur Airport Express, í eigu Grayline, til og þar var nýtingin líka betri en hjá Airport Direct.

Skýringin á þessari ólíku stöðu rútufyrirtækjanna var sú, að mati Hjörvars Sæbergs Högnasonar, framkvæmdastjóra Airport Direct, að fyrirtækið væri nýliði á þessum markaði og það tæki tíma að byggja upp viðskiptasambönd.

Af nýjustu verðskrá Airport Direct að dæma þá er fyrirtækið enn í vanda með sætanýtinguna því í lok nýliðins árs lækkaði farmiðinn aftur og núna niður í 1.990 krónur. Á heimasíðu félagsins er þetta verð auglýst sem sérstakt hátíðartilboð en það er engu að síður ennþá bókanlegt í dag og meira að segja í ferðir félagsins á háannatímum í sumar.

Túristi hefur óskað ástæðum þessarar verðlækkunar hjá Hjörvari Sæberg en ekki fengið nein svör. Þess má geta að Hópbílar/Airport Direct greiða Isavia þriðjung af farmiðaverði í þóknun fyrir aðstöðuna beint fyrir framan Leifsstöð. Verðlækkunin hefur þó ekki bein áhrif á tekjur Isavia því rútufyrirtækið verður að greiða Isavia að lágmarki 127 milljónir á ári fyrir afnot af bílastæðunum. Við upphæðina bætist svo leiga á aðstöðu inn í flugstöðinni.

Hjá Airport Express lækkaðu fargjöldin í kjölfar verðlækkunar Airport Direct. Hjá því fyrrnefnda er stakt fargjald nú á 1.950 krónur sem er það sama og rukkað var fyrir sætaferðirnar árið 2013. Flugrútan heldur þó í fyrri verðskrá og kostar farmiðinn þar 2.999 krónur.