Icelandair lætur WOW air eftir flugið Baltimore

Endurkoma Icelandair í Baltimore kom ekki nægjanlega vel út og WOW air verður því aftur eitt um flugið til borgarinnar.

Frá Baltimore. Mynd: Icelandair

Síðastliðið sumar hóf Icelandair á ný áætlunarflug til Baltimore eftir áratugshlé en flugvöllur borgarinnar var lengi heimahöfn félagsins á bandaríska höfuðborgarsvæðinu. Icelandair færði sig svo yfir á Dulles flugvöll sem er vestur af Washington DC. Í millitíðinni kom WOW air sér hins vegar fyrir í Baltimore og flýgur þangað allt árið um kring.

Í fyrra boðaði Icelandair endurkomu sína til Baltimore og hélt úti áætlunarflugi þangað frá lokum maí og fram í enda október. Á því tímabili flutti félagið nærri 24 þúsund farþega á þessari leið á meðan WOW air flaug með nærri 83 þúsund farþega til og frá Baltimore samkvæmt upplýsingum frá  flugvelli borgarinnar.

Icelandair hugðist taka upp þráðinn í Baltimore á ný í sumar en af því verður ekki því samkvæmt svari félagsins, við fyrirspurn Túrista, var afkoman af fluginu til borgarinnar ekki nógu góð.