Indigo Partners orðað við kaup á Norwegian

Stjórnendur móðurfélags British Airways ætla ekki að reyna aðra yfirtöku á Norwegian. Hlutabréfaverð í norska félaginu féll í kjölfarið. Sérfræðingar telja Norwegian vera heppilegan kost fyrir Indigo Partners sem síðustu vikur hefur skoðað kaup á WOW air.

Mynd: Norwegian

Þegar í ljós kom í vor að IAG, móðurfélag British Airways, ætti orðið nærri fimm prósent hlutafjár í Norwegian og hefði áhuga á að taka norska flugfélagið yfir þá rauk hlutabréfaverðið upp. Í kjölfarið fylgdu yfirtökutilboð frá IAG en þeim var hafnað. Í dag sendi breska félagið svo frá sér tilkynningu þar sem fram koma að búið væri að gefa yfirtöku upp á bátinn og hlutirnir í Norwegian yrðu seldir.

Nær samstundis hrundi hlutabréfaverð í Norwegian um rúman fimmtung og endaði gengið í 144 norskum krónum. Til samanburðar er talið að yfirtökutiboð IAG, síðastliðið sumar, hafi hljóðað upp á 330 krónur á hvern hlut. Munurinn er því ríflega tvöfaldur og víst er að hluthafar í Norwegian eru margir ósáttir í dag. Þar á meðal stóri bróðir Bjørn Kjos forstjóra en þeir bræður eiga saman stóran hlut í félaginu. Síðast í gær hafði sá eldri lýst því yfir í viðtali við Dagens Næringsliv að hann vonaðist til að bróðir sinn myndi á endanum selja IAG félagið. Af því varð ekki.

Hið alvarlegu tíðindi af Norwegian í dag eru mál málanna í norsku viðskiptapressunni nú í kvöld og þeir sérfræðingar sem rætt er við í grein E24 eru sammála um að besta lausnin fyrir Norwegian felist í því að fá inn fagfjárfesta sem hafa reynslu af flugrekstri. Er Indigo Partners nefnt sem dæmi um þess háttar aðila og er það tekið fram í greininni að bandaríska fjárfestingafyrirtækið skoði nú kaup á WOW air. Að mati viðmælenda E24 er talið víst að aðilar eins og Indigo Partners komi ekki að Norwegian nema taka yfir stjórn þess og ekki sé víst að núverandi forstjóri og stjórnarformaður sætti sig við slíkt enda báðir stóri hluthafar í félaginu.