Indigo Partners tjáir sig ekki

Norskir greinendur telja Indigo Partners vera líklegan fjárfesti í Norwegian flugfélaginu. Bandaríska fyrirtækið á í viðræðum við Skúla Mogensen.

norwegian velar860
Mynd: Norwegian

Það varð ljóst í gær að stjórnendur móðurfélags British Airways munu ekki gera nýja tilraun til að taka yfir norska flugfélagið Norwegian. Í kjölfarið töldu norskir greinendur að fjárfestir eins og Indigo Partners gætu komið að félaginu. Indigo Partners er, eins og flestum í kunnugt, í viðræðum um kaup á umtalsverðum hlut í WOW air en viðræður um fjárfestinguna hafa nú staðið yfir í nærri tvo mánuði.

Forsvarsfólk Indigo Partners ætlar hins vegar ekki að ræða mögulega aðkomu fyrirtækisins að Norwegian. Í svari upplýsingafulltrúa Indigo Partners, við fyrirspurn Túrista, segir einfaldlega að fyrirtækið afþakki að tjá sig.

Í lok síðustu viku samþykktu eigendur skuldabréfa í WOW air breytingar á skilmálum en þær voru forsenda fyrir fjárfestingu Indigo Partners í íslenska lággjaldaflugfélaginu. Umsvif Norwegian eru hins vegar miklu meiri en WOW air. Flugfloti félagsins telur um 160 þotur en til samanburðar hefur WOW air yfir 11 flugvélum að ráða.