Íslenska vegabréfið nægir í 181 landi

Þeim hefur fækkað löndunum sem krefjast vegabréfaáritunar frá íslenskum ferðamönnum. Íslenski passinn er hins vegar ekki gjaldgengur eins víða og vegabréf frændþjóðanna.

vegabref 2
Mynd: Þjóðskrá

Það getur verið kostnaðarsamt og tímafrekt að sækja um vegabréfaáritun og það eru því góð tíðindi að áfangastöðunum fjölgar sem samþykkja íslensk vegabréf án sérstakrar áritunar. Þeir eru í dag 181 talsins en voru 165 fyrir fimm árum síðan. Vegabréf frændþjóðanna duga þó víðar. Danir, Finnar og Svíar komast áritunarlausir inn í 187 lönd og svæði og Norðmenn til 185.

Það er hins vegar japanski passinn sem dugar víðast eins og sjá má á nýjum lista Henley&Partners. Í neðsta sæti eru vegabréf sem gefin eru út í Afganistan og Írak því án vegabréfaáritunar komast eigendur þeirra aðeins inn í þrjátíu lönd.

Sem fyrr segir eru íslensku vegabréfin ekki tekin gild í jafnmörgum löndum og passar frændþjóðanna. Íslenska vegabréfið er þó það næstdýrasta. Finnar borga meira fyrir vegabréfin sín þegar litið er til gildistíma eins og sjá má á töflunni.