Lág fargjöld endurspegla ekki lítinn áhuga á Vínarflugi

Það styttist í jómfrúarferð Wizz Air frá Austurríki til Íslands og í dag kostar miðinn í þá ferð aðeins 4800 krónur.

vin2
Frá Vín. Mynd: Ferðamálaráð Vínarborgar

Samgöngurnar milli Íslands og Austurríki munu glæðast í næsta mánuði þegar ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz Air hefur áætlunarflug hingað frá Vínarborg. Aldrei áður hafa reglulegar ferðir verið í boði héðan til austurrísku borgarinnar yfir vetrarmánuðina. Wizz Air áformar að fljúga þrjár ferðir í viku og verður sú fyrsta farin laugardaginn 16. febrúar.

Í dag kostar sætið í fyrstu ferðina héðan til Vínar aðeins um 4800 krónur og farmiðaverðið er í lægri kantinum í febrúar og mars. Talsmaður Wizz Air þvertekur fyrir það, í svari til Túrista, að lítill áhugi á þessari nýju flugleið skýri hin lágu fargjöld. Íslendingar sem hafa hug á að taka hús á Austurríkismönnum í lok vetrar komast því þangað ódýrt.

Af Íslandsútgerð Wizz Air er það annars að frétta að í sumar mun félagið fljúga hingað frá fjórum pólskum borgum og fækkar þeim þá um eina frá því í fyrra. Flugið til Poznan er nefnilega ekki lengur á dagskrá. Félagið hefur einnig lagt niður starfsemi sína í Prag og þar með er Czech Airlines eina félagið sem flýgur milli Íslands og Tékklands.