Munu ekki bjóða í Norwegian

Stjórnendur móðurfélags British Airways og Iberia ætla ekki að gera tilraun til að taka Norwegian yfir.

norwegian velar860

Hlutabréfaverð Norwegian hrundi í hádeginu eftir að stjórnendur IAG, móðurfélags British Airways og fleiri flugfélaga, gáfu það út að þeir eru endanlega hættir við að bjóða í norska lággjaldaflugfélagið. Gengi bréfa Norwegian lækkaði um nærri fimmtung um leið og tilkynningin frá IAG var birt á vef kauphallarinnar í London.

Með þessari tilkynningu er endi bundinn á 9 mánaða vangaveltur um möguleg kaup IAG á Norwegian. Áhugi Bretanna á norska flugfélaginu varð opinber síðastliðið vor þegar í ljós kom að IAG átti orðið nærri fimm prósent hlut í Norwegian og hefði áhuga á að taka Norwegian alfarið yfir. Tveimur tilboðum frá IAG var hafnað af eigendum Norwegian og síðan þá hefur hagur félagsins versnað umtalsvert. Og reyndar það mikið að félagið hefur skorið verulega niður síðustu misseri. Þar á meðal eina af flugleiðum sínum til Íslands.

IAG hyggst reyna að selja hlutabréf sín í Norwegian en eins og staðan er núna þá eru þau töluvert undir því verði sem félagið greiddi fyrir þau á sínum tíma.