Nærri 6 þúsund færri um innanlandsflugvellina

Um 50 þúsund farþegar fóru um aðra flugvelli en Keflavíkurflugvöll í desember. Það er samdráttur miðað við sama tíma í hittifyrra.

flugvel innanlands isavia
Mynd: Isavia

Fækkun farþega á innanlandsflugvöllunum hélt áfram í desember. Þá fóru að jafnaði 1615 farþegar á degi hverjum um aðrar flugstöðvar en Keflavíkurflugvöll. Meðaltalið í desember árið 2017 var 1805 farþegar. Samdrátturinn nemur um ellefu prósentum og í heildina fækkaði farþegunum úr 56 þúsund niður í 50 þúsund í desember. Eins og gefur að skilja getur vont veður sett strik í reikninginn í innanlandsfluginu á þessum tíma árs.

Farþegar í alþjóðaflugi frá þessum flugvöllum og eins ferðamenn í útsýnisflugi eru meðtaldir. Það kann að skýra afhverju farþegum fækkaði hlutfallslega minnst á Akureyrarflugvelli í desember enda býður breska ferðaskrifstofan Super Break nú upp á beint flug frá Bretlandi til Akureyrar. Þaðan flýgur líka Air Iceland Connect beint til Keflavíkurflugvallar með farþega á leið í alþjóðaflug.

Þegar allt árið 2018 er gert upp kemur í ljós að farþegum á innanlandsflugvöllunum fækkaði um nærri fjóra af hundraði samkvæmt tölum Isavia. Fyrirtækið birtir síðar tölur þar sem farþegar í alþjóðaflugi eru frátaldir og þá fæst betri mynd af stöðu innanlandsflugsins.