Nýtt háloftaöl

Þeir sem fljúga með Icelandair á næstunni geta bragðað á nýjum sérbrugguðum bjór á meðan þeir fljúga til og frá landinu.

Snæbjört. Mynd: Icelandair

Það kemst enginn bareigandi upp með það lengur að hafa aðeins hefðbundinn lagerbjór á krana. Nú gera viðskiptavinirnir nefnilega kröfu um eitthvað bragðmeira og úrvalið af bjór hefur því gjörbreyst undanfarin áratug. Einstaka flugfélaga hefur áttað sig á þessum breytta smekk og eitt þeirra er Icelandair sem hleypti af stokkunum sínum eigin bjór í lok síðasta vetrar. Sá bar bruggaður af tilefni af komu nýju Boeing 737 MAX þotanna og var styrkleikinn því 7,37%.

Nú er kominn í loftið nýr Icelandair bjór sem kallast Snæbjört og er hún nokkuð mildari en forveri hennar eða rúm 5 prósent. „Við þróun á bjórnum vildum við ná til sem flestra og fengum því „bjórsérfræðinga“ innan Icelandair jafnt sem almenna áhugamenn til liðs við okkur. Niðurstaðan var þessi bragðgóði og mjúki American pale ale sem uppfyllir þarfir flestra bjór drekkandi manna,“ segir Kristján Jóhannesson hjá Icelandair um Snæbjörtu.

Að sögn Kristjáns er almenn ánægja með bjórbruggunina innan fyrirtækisins og stefnt að því að hleypa af stokkunum einum bjór á ári. Þeir verða þó framleiddir í takmörkuðu upplagi og þannig er reiknað með að Snæbjört verði aðeins á boðstólum fram eftir sumri, bæði um borð í þotum félagsins og á Saga Lounge í Leifsstöð. Kostar dósinn þúsund krónur eða aðeins 100 krónum meira en hefðbundi lagerbjórinn sem Icelandair selur líka.