Ódýrt til Indlands en fá laus sæti heim á ný

Eftir tvær vikur leggur WOW air niður flug sitt til Nýju Delí en kostnaðurinn við hverja flugferð er á bilniu 11 til 15 milljónir.

Skúli Mogensen, forstjóri WOW air og Hr. T. Armstrong Changsan, sendiherra Indlands á Íslandi ásamt áhöfn fyrsta flugs WOW air til Nýju Delí þann 6. desember. Mynd: WOW air

Fyrir sléttum mánuði síðan fór breiðþota WOW air í jómfrúarferð félagsins til Nýju Delí. Um borð var Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, sem fór fyrir fimmtíu manna viðskiptasendinefnd sem hélt utan í tilefni af því að nú væru komnar á flugsamgöngur á milli Íslands og Indlands. Hópurinn var hins vegar rétt að skila sér heim þegar WOW air gaf það út að flugleiðin til Indlands yrði lögð niður 20. janúar næstkomandi.

Í dag eru því aðeins tvær vikur eftir af flugáætluninni og sex ferðir ófarnar héðan til Nýju Delí. Það eru laus sæti í þær allar og kosta ódýrustu farmiðarnir rétt um 30 þúsund krónur nema brottförina sem er á dagskrá á þriðjudaginn. Borga þarf tíu þúsund krónum meira fyrir sæti í þá ferð.

Fullt í heimferðirnar

Það virðist því nóg vera til af miðum út en framboð á flugsætum tilbaka takmarkast við flugið þann 18. janúar og kostar ódýrasti miðinn 49 þúsund krónur. Engin sæti eru fáanleg í flugið til Íslands frá Nýju Delí dagana 11., 13., 16. og  20. janúar. Það er reyndar laust í brottförina frá Indlandi þann 9. janúar en sú ferð er aðeins valkostur fyrir þá sem eru úti núna. Og ódýrasta sætið í þá ferð kostar líka 164 þúsund krónur.

Hver flugferð kostar á annan tug milljóna

Sem fyrr segir þá kosta ódýrustu miðarnir í dag til Nýju Delí rétt um 30 þúsund krónur. Það er töluvert undir því meðalverði sem WOW þarf að fá á hvern farþega um borð. Það kostar WOW air nefnilega um 11 til 15 milljónir að fljúga breiðþotu til Indlands ef miðað er við kostnað flugfélagsins á hvern floginn sætiskílómetra árið 2017 sem birtur var í kynningu á skuldabréfaútboði flugfélagsins í haust. Vissulega hefur sú tala tekið breytingum undanfarið ár en hún ennþá góður mælikvarði á hvað útgerðin kostar í dag.

Heildarkostnaðurinn við þessa 30 flugleggi, sem farnir verða milli Íslands og Nýju Delí, er því líklega á bilinu 330 til 450 milljónir króna. Ef sætanýtingin er um 80 prósent að jafnaði þá þurfa tekjurnar af hverjum farþega að nema um 40 til 55 þúsund kr. á hverri leið. Við þetta bætist svo stofnkostnaðurinn við þessa nýju flugleið en þegar lagt var af stað var ætlunin að halda fluginu út allt árið um kring.

Nú er ljóst að Indlandsflugið verður bara starfrækt í 6 vikur og því óhætt að fullyrða að þessi landvinningar í Indlandi hafa reynst WOW dýrir. Og fyrrnefnd ferð utanríkisráðherra og sendinefndar í byrjun desember hefur líka kostað sitt.