Önnur tilkynning frá WOW í gærkvöld

Eigendur skuldabréfa í WOW féllust líka á niðurfellingu á rétti þeirra til hlutabréfa í flugfélaginu.

Mynd: WOW air

Í tilkynningu sem WOW air sendi frá sér um hádegisbilið í gær kom fram að handhafar skuldabréfanna sem WOW air gaf út í september hefðu fallist á skilmálabreytingar sem þeim voru kynntar í lok síðasta árs. Þessar breytingar eru sagðar forsendan fyrir fjárfestingu Indigo Partners í íslenska lággjaldaflugfélaginu.

Það sem þó vantaði inn í tilkynninguna voru upplýsingar hvað yrði um rétt eigenda bréfanna til kaupa á hlutafé í WOW. Túristi óskaði upplýsinga um þann hluta hjá Skúla Mogensen seinni partinn í gær. Svarið kom skömmu fyrir miðnætti þar sem Skúli vísar í nýtt bréf sem þá hafði verið birt á heimasíðu WOW. Þar kemur fram að samþykki allra skuldabréfaeigenda hafi líka fengist fyrir því að taka út áskriftarrétt á hlutafé. Þar með er boltinn endalega kominn í hendur Bill Franke, stofnanda og aðaleigenda Indigo Partners.