Óstundvísi í Íslandsflugi

Áætlun íslensku flugfélaganna og Keflavíkurflugvallar stóðst of sjaldan í desember.

kef icelandair wow
Myndir: Isavia, Icelandair og WOW

Nærri tvær af hverjum þremur brottförum frá Keflavíkurflugvelli voru á áætlun í desember samkvæmt samantekt greiningafyrirtækisins OAG. Þar er að finna lista yfir stundvísina á nærri tólf hundrað flugvöllum og er Keflavíkurflugvöllur neðarlega á lista eða í sæti númer 1037.

Ennþá neðar á listanum má finna nafn Arlanda flugvallar í Stokkhólmi þar sem aðeins um 57 prósent flugferða var á réttum tíma í desember. Í Helsinki var stundvísin aðeins skárri en á Keflavíkurflugvelli en Kaupmannahafnarflugvöllur kom langbest út af stærstu flughöfnum Norðurlanda því þar fóru 81% af vélunum í loftið samkvæmt áætlun. Í Ósló voru um þrjár af hverjum fjórum ferðum á tíma.

Þegar litið er til frammistöðu einstakra flugfélaga sést að 74 prósent af flugferðum Icelandair komu á áfangastað á auglýstum tíma en hlutfallið var 61 prósent hjá WOW. Í desember var Icelandair því í 102. sæti fyrir stundvísustu flugfélögin í samantekt OAG en WOW var í 148. sæti.