Ótti forstjóra Isavia

Þrátt fyrir einkarétt á góðum gögnum um farþegaflug til og frá landinu þá taldi forstjóri Isavia að framundan væri mun meiri samdráttur í fjölda ferðamanna. Spurt er hvort forstjórinn hafi deilt þessum áhyggjum sínum með stjórnvöldum í ljósi mikilvægis ferðaþjónustunnar.

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. Mynd: Isavia

Nú um mánaðamót hefur Skúli Mogensen ekki hugmynd um hversu margir farþegar nýttu sér ferðir Icelandair í janúar. Að sama skapi þekkir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, ekki farþega­tölur WOW air. Það er hins vegar einn maður sem getur fengið nákvæmar upplýs­ingar um hversu marga farþega þessi tvö lang­um­svifa­mestu flug­félög landsins flytja á degi hverjum og það er Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. Í bókum sínum getur hann líka séð hversu margir farþeg­arnir eru eftir flug­leiðum og hve hátt hlut­fall eru tengifar­þegar. Forstjóri Isavia er líka með skýra mynd af flugáætlun alls milli­landa­flugs til og frá landinu fram í lok október þegar næsta vetr­aráætlun hefst.

Þrátt fyrir ótví­ræða yfir­burða­stöðu þegar kemur að upplýs­ingum um farþega­flug, til og frá landinu, þá virðist Björn Óli ekki hafa mikla tilfinn­ingu fyrir því sem í vændum er. „Það kom okk­ur svo­lítið á óvart hérna inn­an­dyra að þetta var mun betra en við óttuð­umst. Við óttuð­umst miklu, miklu verra,“ sagði forstjóri Isavia í viðtali við Mbl.is eftir að ferða­mannaspá Isavia var kynnt í gær. Hún gerir ráð fyrir því að ferða­fólki fækki hér um nærri þrjá af hundraði  í ár.

Í ljósi mikil­vægis ferða­þjón­ust­unnar fyrir íslenskt efna­hagslíf þá má segja að ferða­mannaspá Isavia sé lykil­breyta í hagkerfinu. Af þeim sökum væri fróð­legt að vita hvort Björn Óli hafi komið ótta sínum á fram­færi. Ekki bara við stjórn Isavia heldur líka Seðla­bankann og stjórn­völd. Það hlýtur nefni­lega að vera mikil­vægt fyrir þessa aðila að fá vitn­eskju um það ef sá einstak­lingur sem er með nokkurs konar einka­rétt á upplýs­ingum um flug­um­ferð hafi óttast „miklu, miklu verri niður­stöðu.”

En hvað var það sem sló á áhyggjur Björns Óla? Jú, það voru upplýs­ingar frá Icelandair og WOW air sem gefa til kynna að flug­fé­lögin ætli að setja Íslands­flug í forgang á kostnað tengiflugs yfir hafið. „Það er betri hagn­aður af því að fljúga farþega til og frá Íslandi held­ur en skiptif­arþega. Það er virki­lega traust­ur mark­aður og menn verða að hafa þann markað. Flug­fé­lög­in virðast hafa tekið ákvörðun um að styrkja þann markað, passa sig á að hon­um verði ekki umbreytt, en svo má ekki gleyma að þó að við höf­um séð niður­sveiflu hjá WOW air þá erum við að sjá upp­sveiflu hjá Icelanda­ir,“ sagði Björn Óli í viðtali við Mbl.is um ferða­manna­spána.

Það fór hins vegar ekki vel síðast þegar Isavia byggði ferða­mannaspá á tölum frá flug­fé­lög­unum tveimur. Það gerði fyrir­tækið líka í sumar­byrjun í fyrra þegar það birti endur­skoðaða áætlun fyrir síðustu sjö mánuði síðasta árs. Þessi uppfærða spá fór hins vegar út af sporinu nærri daginn eftir að hún var birt. Samdrátt­urinn sem Isavia boðaði síðast­liðið sumar í fjölda ferða­manna rættist til dæmis ekki. Ferða­fólki fækkaði ekki um 30 þúsund í júlí eins og spáin gerði ráð fyrir heldur fjölgaði þeim um 7 þúsund.

Að þessu sinni gerir spá Isavia ráð fyrir því að skiptifar­þegum fækki umtals­vert eða um allt að 30 prósent í ágúst. Það eru jákvæð tíðindi fyrir ferða­þjón­ustuna, eins og Björn Óli benti á í gær, því þá fækkar ferða­fólki minna en sem nemur samdrætti í flug­fram­boði. Björn Óli fagnaði þó þeirri fjölgun skiptifar­þega sem var í kort­unum í maí í fyrra og vildi meina að sú þróun sýndi þörfina fyrir frekari uppbygg­ingu Kefla­vík­ur­flug­vallar. Vænt­an­legt hrun í fjölda skiptifar­þega í ár virðist þó ekki vera ástæða til að staldra við og endur­meta stækk­un­ar­áformin ef marka má kynn­ingu Isavia í gær.