Ragnhildur að hætta hjá WOW

Aðstoðarforstjóri WOW air tekur við Reiknistofu bankanna.

wow ragnhildur
Ragnhildur Geirsdóttir mun hafa látið af störfum hjá WOW air. Myndir: WOW

Í sumarlok 2017 tók Ragnhildur Geirsdóttir, fyrrum forstjóri Flugleiða, við sem aðstoðarforstjóri hjá WOW air. Nú 16 mánuðum síðar hefur Ragnhildur sagt starfi sínu hjá flugfélaginu lausu samkvæmt heimildum Túrista. Hún hefur ráðið sig  sem forstjóra Reiknistofu bankanna. Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, mun taka við verkefnum Ragnhildar samkvæmt tilkynningu á heimasíðu WOW sem birtist skömmu eftir frétt Túrista.

Áður en Ragnhildur réði sig til WOW air hafði hún starfað sem forstjóri Promens og framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum. Árið 2005 tók Ragnhildur við sem forstjóri Flugleiða sem þá var heiti móðurfyrirtækis flugfélagsins. Hjá Icelandair hafði hún starfað allar götur síðan árið 1999. Ragnhildur lét hins vegar af starfi forstjóra Flugleiða eftir aðeins 8 mánuði.

Þegar tilkynnt var um ráðningu Ragnhildar í ágúst 2017 kom fram að með tilkomu hennar gæti Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW air, einbeitt sér að langtíma stefnumótun og uppbyggingu flugfélagsins erlendis sem og innleiðingu á tækninýjungum sem ekki höfðu áður þekkst í flugheiminum. Hann vildi þá ekki svara fyrirspurn Túrista um nánari útskýringar á þessum verkefnum. Sagði aðeins að um hernaðarleyndarmál væri um að ræða.

Uppfært: Eftir að frétt Túrista var birt tilkynning á heimasíðu WOW air þar sem fram kemur að Ragnhildur hafi verið ráðinn forstjóri Reiknistofu bankanna. Texti fréttarinnar hefur verið lagfærður í takt við það.