Reykvísk hótel ódýrari í evrum talið

Meðalverðið á tveggja manna herbergi í höfuðborginni hefur lækkað í verði fyrir erlenda ferðamenn. Í krónum er munurinn sáralítill.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com
Vísbendingar eru um að hótelnóttin í Reykjavík í janúar hafi kostað erlenda ferðamenn minna en þá sem voru hér í janúar í fyrra. Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Ferðamaður sem bókaði hótelnótt í Reykjavík í janúar borgaði að jafnaði 10 evrum minna fyrir herbergið en sá sem var á ferðinni hér í janúar í fyrra. Þá var meðalverðið fyrir hefðbundið tveggja manna herbergi 134 evrur en það er núna komið niður í 124 evrur samkvæmt úttekt ferðasíðunnar Trivago. Sú nýtur töluverða vinsælda hjá ferðafólki í Evrópu og Bandaríkjunum og er ágætis mælikvarði á stöðuna. Bókanir ferðaskrifstofa eru ekki hluti af úttektinni.

Megin skýringin á þessari 7,5 prósent lækkun meðalverðs á hótelgistingu í Reykjavík skrifast væntanlega aðallega á veikingu krónunnar. Gengi hennar er í dag 9,3 prósent lægra en það var fyrir ári síðan. Í krónum talið er meðalverðið á reykvíska hótelherberginu í dag um 17100 krónur en var um tvö hundruð krónum lægra í janúar í fyrra.