Róm-Reykjavík undir niðurskurðarhnífinn

Boðaðar sparnaðaraðgerðir hjá Norwegian munu draga úr fjölbreytninni á Keflavíkurflugvelli.

Frá Róm. Mynd: Christopher Czermak

Umtalsverðar breytingar á leiðakerfi Norwegian eru meðal þeirra sparnaðaraðgerða sem forsvarsmenn norska lággjaldafélagsins vinna nú að. Á næstunni leggur félagið því niður starfsstöðvar sínar í Stewart og Providence á austurströnd Bandaríkjanna og flytur þotur sínar frá Mallorca, Kanarí og Tenerife. Þessu til viðbótar hættir félagið að fljúga styttri leiðir frá Róm og einbeitir sér í staðinn að Ameríkuflugi frá ítölsku borginni.

Þar með eru allar líkur á að Norwegian hætti að fljúga hingað frá Róm en ekki liggur fyrir hvenær þessar breytingar taka gildi. Ennþá er til að mynda hægt að bóka flug með félaginu héðan til borgarinnar fram til lok október. Norwegian er eini valkosturinn fyrir þá sem vilja fljúga beint héðan til ítölsku höfuðborgarinnar en bæði WOW og Vueling gáfust upp á flugleiðinni eftir tvær sumarvertíðir.

Slæm tíðindi fyrir ferðaþjónustuna

Flugsamgöngur milli Íslands og Ítalíu hefur lengi verið af skornum skammti og þetta er í fyrsta sinn nú í vetur sem hægt er að fljúga þangað á þessum árstíma ef  frá er talið leiguflug með íslenskt skíðafólk til Verona. Auk Rómarflugs Norwegian þá flugu þotur WOW beint til Mílanó í byrjun þessa vetrar og þessar samgöngubætur skýra væntanlega þá miklu aukningu sem varð í fjölda ítalskra ferðamanna í nóvember síðastliðnum. Þá komu hingað nærri tólf hundruð fleiri Ítalir en á sama tíma árið 2017. Hlutfallslega nam aukningin 58 prósentum samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Viðbótin var minni í desember eða 11 prósent.

Icelandair gæti horft til Rómar

Fyrir íslenska túrista er auðvitað líka missir í Rómarflugi Norwegian og sem fyrr segir þá varð ekki framhald á ferðum WOW og Vueling þangað frá Keflavíkurflugvelli. Stjórnendur Icelandair sögðu í fyrra að boðaðar breytingar í leiðakerfi félagsins gætu gert því kleift að hefja áætlunarflug til fjarlægari áfangastaða í Evrópu. Hingað til hefur félagið nefnilega nærri eingöngu takmarkað ferðir sínar í austur við fjögurra klukkutíma flugferðir en flugið til Rómar tekur um fimm tíma frá Keflavíkurflugvelli.