Síðasta ferðin til Rómar í lok mars

Nú liggur fyrir að Norwegian leggur niður flugið milli Ítalíu og Íslands í vetrarlok.

Frá Rómarborg. Mynd: christopher Czermak / Unsplash

Í fyrsta sinn nú í vetur hafa farþegar á Fiumicino flugvelli í Róm átt þess kost að fljúga beint til Íslands á þessum tíma árs og Íslendingar hafa komist til höfuðborgar Ítalíu fyrir lítið. Það er norska lággjaldaflugfélagið Norwegian sem boðið hefur upp á tvær ferðir í viku á þessari leið en nú sér fyrir endann á þjónustunni. Ástæðan er boðaður niðurskurður hjá flugfélaginu líkt og Túristi greindi frá í síðustu viku.

Þá lá ekki fyrir hvenær síðasta ferðin milli Reykjavíkur og Rómar yrði farin og ekki hafa fengist upplýsingar frá upplýsingafulltrúum félagsins. Núna er svarið hins vegar að finna í bókunarvél Norwegian því fargjöldin á öllum flugferðum, frá og með lokum mars, hafa verið hækkuð upp í rúmlega 100 þúsund krónur á hvern fluglegg. Svo hátt verð eru fáir til í að borga fyrir flugsæti án farangurs og veitinga og það vita stjórnendur flugfélagsins mætavel. Háu fargjöldin eiga nefnilega að koma í veg fyrir frekari pantanir þangað til að flugleiðin hefur verið endanlega slegin af.

Íslenskir farþegar sem setja stefnuna á Ítalíu í vor og sumar geta þá nýtt sér áætlunarflug Icelandair og WOW til Mílanó og eins bjóða Heimsferðir upp á nokkrar ferðir til Trieste yfir sumarmánuðina. Báðar borgirnar eru hins vegar í norðurhluta landsins.