Skoða fleiri ferðir til Grænhöfðaeyja

Íslensku ferðafólki á Grænhöfðeyjum gæti fjölgað umtalsvert næsta vetur.

Frá Grænhöfðaeyjum en þangað setur Vita stefnuna á ný í haust og vetur. Mynd: Vita

„Ég tel að Grænhöfðaeyjar geti orðið vinsæll áfangastaður á veturna fyrir þá sem vilja sól, hvítar strendur og prófa eitthvað alveg nýtt,“ segir Jakob Ómarsson, markaðsstjóri Vita. Á eyjunum er núna staddur hópur á vegum ferðaskrifstofunnar sem nýtti sér fyrsta beina flugið þangað sem seldist upp á aðeins örfáum vikum. Jakob segir að sala á næstu brottförum sé ekki hafin en verið sé að skoða ferðir í haust og svo næsta vetur.

Vetrarferðir til Grænhöfðaeyja (e. Cabo Verde) hafa lengi verið á boðstólum hjá skandinavískum ferðaskrifstofum á meðan úrvalið hjá þeim íslensku hefur einskorðast við Kanaíreyjar. Munurinn á veðurfarinu á þessum tveimur eyjaklösum er þó lítill en helst sá að það rignir almennt minni á Grænhöfðaeyjum að sögn Jakobs. Verðlagið þar getur líka verið hagstæðara en á Kanarí og Tenerife þó munurinn sé ekki mikill.

Það tekur um 7 klukkutíma og 20 mínútur að fljúga héðan til Grænhöfðaeyja en fyrir utan gott veðurfar eru eyjarnar þekkar fyrir fallegar strendur og tæran sjó. Og Grænhöfðaeyjar eiga það sameiginlegt með okkur Íslendingum að tónlistarmenning þeirra hefur borið hróður íbúanna út um víða veröld. Þannig er tónlist söngkonunnar Ces­ária Évora mörgum Íslendingum kunn en hún hélt tónleika hér í tvígang í byrjun aldarinnar.