Skuld Ernis álíka há og tap Isavia af falli Primera air

Isavia hefur kyrrsett stærstu farþegavél flugfélagsins Ernis vegna 98 milljón króna skuldar. Tap Isavia af gjaldþroti Primera air hefur af öllum líkum numið álíka hárri upphæð.

Dornier flugvél Flugfélagsins Ernir hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli. Mynd: Flugfélagið Ernir

Hver lending á Reykjavíkurflugvelli kostar Flugfélagið Ernir á bilinu 20 til 50 þúsund krónur í lendinga- og farþegagjöld en verðskrá Isavia, rekstraraðila flugvallanna, er helmingi lægra út  á landi. Nú er skuld flugfélagsins á þessum gjöldum og leigu á aðstöðu við flugvellina komin upp 98 milljónir króna. Það svarar til um það bil eins árs þjónustugjöldum samkvæmt Herði Guðmundssyni, forstjóra Ernis,  í samtali við Fréttablaðið í dag. En blaðið segir frá því að stjórnendur Isavia hafi kyrrsett Dornier flugvél Ernis vegna skuldarinnar. „Menn eru aðeins að hnykla vöðv­ana,“ segir Hörður um málið.

Að lenda farþegaþotu á Keflavíkurflugvelli kostar töluvert meira þar sem greitt er fyrir hvert tonn og fjölda farþega. Og miðað við útreikninga Túrista þá hefur Primera air skuldað hátt í hundrað milljónir í þjónustugjöld á Keflavíkurflugvelli þegar flugfélagið fór í þrot 1. október síðastliðinn.

Þess má geta að í nýlegu svari samgönguráðherra við fyrirspurn Jón Steindórs Valdimarssonar, þingmanns Viðreisnar, um skuldir flugrekenda við Isavia, kemur fram að stjórnendur fyrirtækisins telji sér ekki heimilt að neita flugfélögum um afnot af flugvöllum landsins þrátt fyrir ógreidda reikninga.