Stemning fyrir gistináttaskatti í Edinborg

Borgaryfirvöld í höfuðborg Skotlands skoða innleiðingu á nýjum skatti sem leggst fyrst og fremst á ferðamenn.

edinborg a
Frá Edinborg. Mynd: Ferðamálaráð Edinborgar

Til Edinborgar koma árlega um fjórar og hálf milljón ferðamanna og ferðaþjónusta borgarinnar stendur sterkt að mati borgarfulltrúans Adam McVey sem mælir nú fyrir nýjum hótelskatti í borginni. Ekki liggur fyrir hvort skatturinn muni nema tveimur prósentum af verði gistingarinnar eða miðist við tvö pund á fyrir hverja selda gistináttaeiningu.

Ef síðari aðferðin verður fyrir valinu þá verður gjaldið jafn hátt og íslenski gistináttaskatturinn er eða 300 krónur á hverja gistináttaeiningu. Víðast hvar eru gistináttaskattar hlutfallslegir í takt við tegund gistingar og eru þá lagðir á hvern gest. Með íslensku aðferðinni er engin greinarmunur gerður á svefnpokaplássi eða hótelsvítu. Gesturinn í kojunni borgar því jafn mikið og allir gestir svítunnar samanlagt.

Í frétt Independent kemur fram að kannanir sýni að almennur stuðningur er við þessar tillögur McVey meðal íbúa Edinborgar. Þannig bárust hátt í tvö þúsund umsagnir um skattinn og 85 prósent þeirra voru jákvæðar. Engum sögum fer að stuðningi ferðaþjónustu borgarinnar við hina boðuðu skattheimtu.