Telur keppinautana selja farmiða undir kostnaðarverði

Það er offramboð á sætaferðum til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og verðlagið ekki sjálfbært að mati Kynnisferða sem eiga og reka Flugrútuna.

flugrutan
Flugrútan hefur lengsta reynslu af sætaferðum milli Keflavíkurflugvallar og Leifsstöðvar. Í dag er verðskrá fyrirtækisins nokkru hærri en samkeppnisaðilanna. Mynd: Kynnisferðir

Á meðan stjórnendur Hópbíla/Airport Direct og Gray Line/Airport Express hafa lækkað farmiða í sætaferðir sínar til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar umtalsvert þá halda Kynnisferðir/Flugrútan fast í sitt verð líkt og Túristi greindi frá í gær. Ódýrustu miðarnir hjá þeim fyrrnefndu fást núna á tæpar 2 þúsund krónur en farið með Flugrútunni er um helmingi dýrara eða 2.999 krónur. Ef keyptir eru miðar báðar leiðir er munurinn minni.

„Við höfum ekki orðið vör við verulega neikvæð áhrif á sölu þrátt fyrir mikla samkeppni,“ segir Engilbert Hafsteinsson, rekstrarstjóri sölu- og markaðssviðs Kynnisferða, aðspurður um verðstefnu keppinautanna. „Við getum ekki svarað fyrir það hvort rekstur hjá öðrum sé sjálfbær eða undir kostnaðarverði en miðað við þau gjöld sem ISAVIA rukkar, launakostnað og olíuverð þá myndi ég áætla að verð samkeppnisaðilanna sé undir kostnaðarverði og reksturinn því ekki sjálfbær. Það er jafnframt okkar mat að offramboð sé á sætaferðum milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarinnar og það muni draga úr framboðinu í náinni framtíð.“

Engilbert segir áhersluna hjá Kynnisferðum vera á að veita góðu þjónustu gegn sanngjörnu verði miðað við það rekstrarumhverfi sem fyrirtækið starfi í. Verðskrá Flugrútunnar sé þó ávallt til skoðunar bætir hann við. Í því samhengi má benda á að farmiðaverðið hjá fyrirtækinu hækkaði tvisvar sinnum á stuttu millibili, fyrst haustið 2017 og aftur í byrjun síðasta árs. Sú hækkun rakin til aukins kostnaðar í kjölfar útboðs Isavia á aðstöðu við Leifsstöð sem haldið var sumarið 2017. Þar var farið fram á að rútufyrirtækin byðu Isavia hlutdeild í tekjum sínum af sætaferðum frá Leifsstöð auk fastrar leigu á stæðum og aðstöðu í flugstöðinni.

Kynnisferðir áttu hæsta tilboðið og greiða í dag 41,2% af tekjum Flugrútunnar á þessari leið til Isavia. Hópbílar voru með næst hæsta  tilboðið og fær Isavia þriðjung af þeirra tekjum. Gray Line bauð lægra hlutfall og missti í kjölfarið aðstöðuna beint fyrir framan komusal flugstöðvarinnar fluttist yfir á sérstakt fjarstæði. Gjaldheimta Isavia á því stæði var stöðvuð tímabundið af Samkeppniseftirlitinu sem er ennþá með málið til skoðunar.

Allt frá því að akstur hófst samkvæmt skilmálum útboðsins þann 1. mars sl. þá hafa fyrirtækin þrjú haldið úti ferðum í tengslum við allar komur og brottfarir farþegaflugvéla frá Keflavíkurflugvelli. Athugun Túrista í sumar leiddi í ljós að sætanýtingin í ferðir félaganna var mjög misjöfn.