Þotur Icelandair þétt­setnari en áður

Hlutfall bókaðra sæta hjá Icelandair var hærra í nóvember og desember en dæmi eru um síðustu ár. Óvissan um stöðu WOW air gæti þar haft áhrif.

Mynd: Icelandair

Auðu sætunum um borð í flug­vélum Icelandair fjölgaði framan af ári í fyrra því sæta­nýt­ingin fór þá lækk­andi í saman­burði við árin á undan. Þessari þróun var snúið við í nóvember og desember þegar áttatíu prósent sætanna voru skipuð farþegum í hvorum mánuði fyrir sig. Svo há hefur nýtingin ekki áður verið þessa tvo síðustu mánuði ársins þegar litið er til flutn­inga­talna Icelandair sem ná aftur til ársins 2011 á heim­síðu flug­fé­lagsins.

Í mánað­ar­legum uppgjörum Icelandair eru ekki birtar tölur um þróun fargjalda öfugt við það sem tíðkast hjá bæði Norwegian og SAS. Lækkun fargjalda í lok árs gæti þó verið skýr­ingin á því að sæta­nýt­ingin hjá Icelandair var svona há í lok árs. Túristi hefur óskað eftir upplýs­ingum um fargjalda­þró­unina hjá Icelandair en ekki fengið nein svör. Í ljósi endur­tek­inna yfir­lýs­inga forstjóra flug­fé­lagsins um að fargjöld verði almennt að hækka, til að endur­spegla aukinn rekstr­ar­kostnað flug­fé­laga, þá má gera ráð fyrir að meðal­far­gjaldið hafi ekki farið niður á við hjá Icelandair í lok síðasta árs.

Skýr­ingin á betri nýtingu sæta gæti því frekar legið í óviss­unni sem ríkir í kringum rekstur WOW air, helsta samkeppn­is­að­ilans. Umræðan um vand­ræði WOW er skilj­an­lega lang­mest á heima­mark­aðnum og hefur hún varla farið fram hjá nokkrum Íslend­ingi. Það er því ekki ósenni­legt að ástandið á WOW hafi haft þau áhrif að nú sé aukin ásókn í flug með Icelandair frá Íslandi. Þess ber þó að geta að Túristi bað einnig um upplýs­ingar frá Icelandair um hvort hlut­fall íslenskra farþega hafi farið hækk­andi hjá félaginu undan­farna  mánuði en fékk ekki svar.

Fyrir sumarið bætast 6 Boeing MAX þotur við flug­flota Icelandair og þar sem þær taka færri farþega en þoturnar sem fyrir eru í flug­flota Icelandair má gera ráð fyrir að sæta­nýt­ingin hjá Icelandair fari hækk­andi af þeim sökum.