Þotur Icelandair þéttsetnari en áður

Hlutfall bókaðra sæta hjá Icelandair var hærra í nóvember og desember en dæmi eru um síðustu ár. Óvissan um stöðu WOW air gæti þar haft áhrif.

Mynd: Icelandair

Auðu sætunum um borð í flugvélum Icelandair fjölgaði framan af ári í fyrra því sætanýtingin fór þá lækkandi í samanburði við árin á undan. Þessari þróun var snúið við í nóvember og desember þegar áttatíu prósent sætanna voru skipuð farþegum í hvorum mánuði fyrir sig. Svo há hefur nýtingin ekki áður verið þessa tvo síðustu mánuði ársins þegar litið er til flutningatalna Icelandair sem ná aftur til ársins 2011 á heimsíðu flugfélagsins.

Í mánaðarlegum uppgjörum Icelandair eru ekki birtar tölur um þróun fargjalda öfugt við það sem tíðkast hjá bæði Norwegian og SAS. Lækkun fargjalda í lok árs gæti þó verið skýringin á því að sætanýtingin hjá Icelandair var svona há í lok árs. Túristi hefur óskað eftir upplýsingum um fargjaldaþróunina hjá Icelandair en ekki fengið nein svör. Í ljósi endurtekinna yfirlýsinga forstjóra flugfélagsins um að fargjöld verði almennt að hækka, til að endurspegla aukinn rekstrarkostnað flugfélaga, þá má gera ráð fyrir að meðalfargjaldið hafi ekki farið niður á við hjá Icelandair í lok síðasta árs.

Skýringin á betri nýtingu sæta gæti því frekar legið í óvissunni sem ríkir í kringum rekstur WOW air, helsta samkeppnisaðilans. Umræðan um vandræði WOW er skiljanlega langmest á heimamarkaðnum og hefur hún varla farið fram hjá nokkrum Íslendingi. Það er því ekki ósennilegt að ástandið á WOW hafi haft þau áhrif að nú sé aukin ásókn í flug með Icelandair frá Íslandi. Þess ber þó að geta að Túristi bað einnig um upplýsingar frá Icelandair um hvort hlutfall íslenskra farþega hafi farið hækkandi hjá félaginu undanfarna  mánuði en fékk ekki svar.

Fyrir sumarið bætast 6 Boeing MAX þotur við flugflota Icelandair og þar sem þær taka færri farþega en þoturnar sem fyrir eru í flugflota Icelandair má gera ráð fyrir að sætanýtingin hjá Icelandair fari hækkandi af þeim sökum.