Þoturnar standa óhreyfðar

Airbus A321 farþegaþoturnar sem WOW seldi til Air Canada hafa ekki tekið á loft svo dögum skiptir. Ekki fást skýringar frá WOW á stöðunni.

TF-MOM er ein af þotunum sem staðið hafa við Flugstöð Leifs Eiríkssonar frá því í þarsíðustu viku. Mynd: WOW air

Þoturnar fjórar sem WOW air seldi til Air Canada í árslok hafa staðið óhreyfðar á Keflavíkurflugvelli í nærri hálfan mánuð. Í tilkynningu sem WOW sendi frá sér, í tengslum við söluna á þotunum til kanadíska flugfélagsins, kom fram að þær yrðu afhentar í janúar. Túristi hefur ekki fengið svör við fyrirspurnum um hvers vegna þoturnar eru ekki nýttar í áætlunarflug WOW fram að afhendingu.

Skýringin á því kann að vera sú að stjórnendur WOW telji það koma betur út fjárhagslega að halda þotunum á jörðu niðri þar sem fargjöld séu einfaldlega of lág um þessar mundir. Tapið af því að láta þær standa er þá minna en af því að fljúga farþegum út í heim. Í fyrrnefndri fréttatilkynningu frá WOW kom fram að legið hafi fyrir að minnka þurfti flugflota félagsins til þess að auka hagkvæmni, draga úr árstíðarsveiflu og hámarka arðsemi.

Vegna sölu flugvélanna fjögurra er gert ráð fyrir að sjóðsstaða WOW air muni batna um 12 milljónir Bandaríkjadala. Það jafngildir um einum og hálfum milljarði króna. Ekki liggur fyrir hvort þoturnar hafi verið seldar yfir eða undir bókfærðu virði þeirra.