Þoturnar verða afhentar á næstunni

Air Canada fær flugvélarnar fjórar sem félagið keypti af WOW air á næstu dögum og vikum.

Mynd: London Stansted

Fjórar af þotunum í flugflota WOW air eru á kaupleigu og það eru þær sem félagið hefur nú selt til kanadíska flugfélagsins Air Canada. Í tilkynningu sem WOW sendir frá sér 21. desember síðastliðinn segir að þoturnar verði afhentar í janúar og að salan á þeim muni bæta lausafjárstöðu flugfélagsins um einn og hálfan milljarð króna.

Þessar fjórar Airbus A321 þotur eru ekki lengur nýttar í áætlunarflug WOW air og hafa þær staðið á Keflavíkurflugvelli ónotaðar frá í nærri tvær vikur eins og Túristi greindi frá í dag. Í fréttinni kom fram að leitað hefði verið skýringa á þessu hjá félaginu en ekkert svar hefði borist.

Í kjölfar birtingu greinarinnar sendi Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, hins vegar svar þar sem segir að vélarnar verði afhentar Air Canada ein af annarri á næstu dögum og vikum. „Það er eðlilegt ferli og samkvæmt áætlun enda að mörgu að huga við sölu og afhendingu flugvéla,“ segir Svanhvít. Ekki fengust upplýsingar um hvaða hlutir það væru sem þyrfti að leysa fyrir afhendingu eða hvort ekki hefði verið hægt að nota þoturnar í áætlunarflug á tímabilinu.

Ein af þotunum fjórum hefur til að mynda verið nýtt í áætlunarflug WOW til Pittsburgh en eins og fram kemur á Vísi þá ætla flugmálayfirvöld þar í borg óska eftir því að WOW endurgreiði styrki upp á um 70 milljónir króna. Styrkurinn var veittur WOW fyrir að halda úti áætlunarflugi til borgarinnar í að minnsta kosti 2 ár. Sá tími rennur út í júní næstkomandi og því ljóst að félagið var nærri búið að standa við sitt þegar áætlunarferðirnar til Pittsburgh voru teknar af dagskrá.