Vilji skuldabréfaeigenda ætti að liggja fyrir

Atkvæðagreiðslu skuldabréfaeigenda WOW air lauk seinnipartinn í dag en ekki er vitað hvenær niðurstöður verða kynntar opinberlega.

Mynd: London Stansted

Þeir sem keyptu skuldabréf í útboði WOW air í haustbyrjun hafa nú haft fimm vikur til að taka afstöðu til tilboðs flugfélagsins um breytingar á skilmálum bréfanna. Frestur fjárfestanna til að skila inn atkvæða sínu rann út seinnipartinn í dag en samkvæmt tilkynningu WOW air frá 14. desember þá er fjárfesting Indigo Partners í WOW air háð því að skuldabréfaeigendur samaþykki breytingarnar. Samkvæmt skilmálum bréfanna þurfa handhafar að tveimur þriðja hluta bréfanna að veita vilyrði fyrir breytingunum svo þær öðlist gildi.

Túristi hefur í vikunni óskað eftir upplýsingum frá WOW air um hvenær niðurstaða atkvæðagreiðslu skuldabréfaeigenda verður kynnt en ekki hafa fengist svör. Í ljósi þess hve mikið veltur á niðurstöðunni má búast við að WOW air sendi frá sér tilkynningu fyrr en síðar því eins og áður segir þá veltur fjárfesting Indigo Partners, á allt að 49 prósent hlut í WOW air, á því að skuldabréfaeigendur sættist á skilmálabreytingarnar.