WOW ekki lengur í viðskiptum við N1

Eldsneytið sem sett er á þotur WOW air kemur nú frá erlendum aðila.

Mynd: WOW air

Um áramótin rann út samningur WOW air við N1 um kaup á þotueldsneyti. Í kjölfarið samdi flugfélagið við breska olíufyrirtækið BP sem nú sér flugflota WOW air fyrir orkugjafa og reyndar Icelandair líka. „Við töpuðum útboðum Icelandair og WOW air varðandi kaup á þotueldsneyti,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1,  í samtali við Túrista en undanfarið ár hefur fyrirtækið séð WOW air fyrir olíu til jafns við BP. Eggert tekur það fram að WOW air hafi ávallt greitt alla sína reikninga og ekkert standi út af borðinu nú þegar leiðir skilja.

Upphæðirnar sem um ræðir í olíuviðskiptum flugfélaga eru umtalsverðar enda þarf mikið magn af eldsneyti til að koma farþegaþotu frá Keflavíkurflugvelli til Evrópu, Ameríku eða jafnvel Indlands. Þannig má gera ráð fyrir að olíureikningur dagsins hjá WOW air hljóði upp á 20 til 25 milljónir króna samkvæmt útreikningi Túrista og reikningur vikunnar því vel á annað hundrað milljónir.

Þessi útreikningur Túrista byggir á þeim kílómetrafjölda sem þotur WOW air munu fljúga næsta sólarhring, fjölda sæta um borð í hverri ferð og þeim einingakostnaði sem fram kom í kynningu á skuldabréfaútboði WOW air í haust. Tekið er tillit til þeirra verðbreytinga sem átt hafa sér stað síðastliðið ár.

WOW air er er ekki varið fyrir hækkunum á olíu öfugt við það sem almennt gildir í evrópskum flugrekstri. Flugfélagið kaupir því sitt eldsneyti frá degi til dags á meðan Icelandair hefur fest verðið á ríflega helmingi af sínum eldsneytiskaupum lengra fram í tímann.