WOW ekki lengur í viðskiptum við N1

Eldsneytið sem sett er á þotur WOW air kemur nú frá erlendum aðila.

Mynd: WOW air

Um áramótin rann út samn­ingur WOW air við N1 um kaup á þotu­eldsneyti. Í kjöl­farið samdi flug­fé­lagið við breska olíu­fyr­ir­tækið BP sem nú sér flug­flota WOW air fyrir orku­gjafa og reyndar Icelandair líka. „Við töpuðum útboðum Icelandair og WOW air varð­andi kaup á þotu­eldsneyti,” segir Eggert Þór Kristó­fersson, forstjóri N1,  í samtali við Túrista en undan­farið ár hefur fyrir­tækið séð WOW air fyrir olíu til jafns við BP. Eggert tekur það fram að WOW air hafi ávallt greitt alla sína reikn­inga og ekkert standi út af borðinu nú þegar leiðir skilja.

Upphæð­irnar sem um ræðir í olíu­við­skiptum flug­fé­laga eru umtals­verðar enda þarf mikið magn af eldsneyti til að koma farþega­þotu frá Kefla­vík­ur­flug­velli til Evrópu, Ameríku eða jafnvel Indlands. Þannig má gera ráð fyrir að olíu­reikn­ingur dagsins hjá WOW air hljóði upp á 20 til 25 millj­ónir króna samkvæmt útreikn­ingi Túrista og reikn­ingur vikunnar því vel á annað hundrað millj­ónir.

Þessi útreikn­ingur Túrista byggir á þeim kíló­metra­fjölda sem þotur WOW air munu fljúga næsta sólar­hring, fjölda sæta um borð í hverri ferð og þeim eininga­kostnaði sem fram kom í kynn­ingu á skulda­bréfa­út­boði WOW air í haust. Tekið er tillit til þeirra verð­breyt­inga sem átt hafa sér stað síðast­liðið ár.

WOW air er er ekki varið fyrir hækk­unum á olíu öfugt við það sem almennt gildir í evrópskum flugrekstri. Flug­fé­lagið kaupir því sitt eldsneyti frá degi til dags á meðan Icelandair hefur fest verðið á ríflega helm­ingi af sínum eldsneytis­kaupum lengra fram í tímann.