12 byssur á dag í vopnaleitinni

Enn eitt árið fellur vafasamt met vestanhafs því vopnuðum flugfarþegum virðist fjölga í takt við aukna umferð.

Hluti af þeim byssum sem voru gerðar upptækar á bandarískum flugvöllum í fyrra. Mynd: TSA

Vopnaleitin á bandarískum flugvöllum stendur undir nafni því í fyrra voru 4.239 byssur gerðar upptækar í handfarangri flugfarþega eða um tólf á degi hverjum. Í níu af hverjum tíu tilfellum voru skotvopnin hlaðin.

Flestir voru gripnir í vopnaleitinni á Atlanta flugvelli í Georgíufylki og fjölgaði tilfellunum um rúmlega helming. Flughöfnin í Atlanta er jafnframt sú fjölfarnasta í Bandaríkjunum og miðstöð innanlandsflugs. Það kann að skýra hinn tíða vopnaburð farþega.

Næst flestar voru byssurnar á Dallas flugvelli en þaðan var í fyrsta sinn flogið til Íslands í fyrra og nýttu um 50 þúsund farþegar, langflestir Bandaríkjamenn, ferðirnar. Flugvellir í suðurhluta Bandaríkjanna, þar sem vopnaburður er víða almennur, koma af skiljanlegum ástæðum illa út úr samanaburði við stærstu flugvellina á vestur- og austurströnd Bandaríkjanna því eins og sjá má þá komast flugvellirnir í stórborgunum þar ekki á listaa yfir þá 10 flugvelli þar sem flestir reyna að komast um borð með byssur. Hámarkssekt fyrir þess háttar er um ein of hálf milljón króna.

Flugvellirnir þar sem flestir eru teknir með byssur:

  1. Hartsfield-Jackson Atlanta flugvöllur: 298 og 253 hlaðnar.
  2. Dallas/Fort Worth: 219 og 193 hlaðnar.
  3. Phoenix Sky Harbor: 129 og 120 hlaðnar.
  4. Denver: 126 og 95 hlaðnar.
  5. Orlando: 123 og 112.
  6. George Bush í Houston: 117 og allar nema tvær hlaðnar.
  7. Fort Lauderdale: 96 og 80 hlaðnar.
  8. Austin-Bergstrom: 93 byssur og 76 hlaðnar.
  9. Dallas Love Field: 89 og 83 hlaðnar.
  10. Nashville: 86 og 80 hlaðnar