4280 farþegar á milli Íslands og Bretlands á degi hverjum

Samgöngurnar héðan til breska flugvalla hafa lengi verið góðar og margir sem nýta sér þær. Í fyrra fjölgaði þem en samdrátturinn var þónokkur í lok árs.

Frá Gatwick við London en flestir fljúga til Íslands frá þeim flugvelli. Mynd: Gatwick airport

Ef ferðinni er heitið til Bretlands þá eru valkostirnir margir. Frá Keflavíkurflugvelli er núna flogið beint til níu breskra flugvalla og áætlunarferðirnar til London hafa verið allt að tólf á dag. Bresku áfangastöðum íslensku flugfélagaanna hefur þó fækkað síðustu misseri. Nú flýgur Icelandair ekki lengur til Birmingham og Bombardier flugvélar Air Iceland Connect eru hættar að sjást við flugstöðvarnar í Aberdeen og Belfast. Á sama tíma hefur WOW lagt niður áætlunarflug sitt til Bristol og félagið gerði líka vetrarhlé á ferðunum til Edinborgar. Við þetta bætist að Norwegian flýgur ekki lengur frá Gatwick og brátt færast umsvif WOW frá þessum næststærsta flugvelli Bretland og yfir á Stansted.

Þrátt fyrir þennan samdrátt þá nýttu nærri þrjú prósent fleiri farþegar sér flug milli Íslands og Bretlands í fyrra en árið 2017. Í heildina voru farþegarnir rúmlega ein og hálf milljón eða 4620 á degi  hverjum. Hafa ber í huga að farþegar eru tvítaldir, bæði þegar þeir lenda í Bretlandi og líka þegar þeir fljúga þaðan.

Eins og gefur að skilja þá er stór hluti þessara farþega á  leið með íslensku flugfélögunum milli Bretlands og N-Ameríku. Og eins og hefur komið fram í viðtölum Túrista við forsvarsmenn British Airways þá hafa kínverskir ferðamenn verið stór hluti af þeim sem nýta sér ferðir þess félags frá London.

Eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan þá varð nokkur samdráttur í nóvember og desember en núgildandi vetraráætlun hófst í lok október síðastliðinn. Það er því líklegt að farþegafjöldinn hafi farið lækkandi áfram í janúar og febrúar. Páskarnir skýra svo sveiflurnar í mars og apríl.

Auk áætlunarferða til Keflavíkurflugvallar þá er einnig í boði leiguflug frá Bretlandseyjum til bæði Keflavíkurflugvallar og Akureyrar. Þeir farþegar eru ekki meðtaldir í tölunum hér að neðan. Upplýsingar eru fengnar frá breskum flugmálayfirvöldum en sambærilegar upplýsingar eru ekki opinberar hér á landi og kærði Túristi á afstöðu Isavia til úrskurðarnefndar upplýsingamála síðastliðið vor. Málið hefur ekki ennþá verið tekið fyrir.