7,1 milljón flugsæta í sumar

Samdráttur í framboði á flugi til landsins nemur um 800 þúsund sætum.

Mest framboð á flugsætum verður til og frá Kaupmannahöfn í sumar að því er fram kemur í ferðaáætlunum flugfélaganna sem fljúga um Keflavíkurflugvöll á komandi sumri. Í tilkynningu frá Isavia segir að framboð á sætum til og frá Kaupmannahöfn aukist um níu prósent frá því sem var í fyrra. Heildarframboð dregst þó saman, fer úr 7,9 milljón flugsætum, niður í 7,1 milljón flugsæta í ár. „Það er samdráttur upp á 10 prósent. Hafa ber þó í huga að þessi flugáætlun, sem og aðrar, geta tekið breytingum hjá flugfélögunum,“ segir í tilkynningu.

Icelandair stendur undir nærri fjórum milljónum sæta eða rúmum helmingi alls framboðsins og bætir félagið við sig frá því í fyrra. Hins vegar minnkar framboðið á vegum WOW air um 44 prósent eins og sjá má á töflum Isavia.