8000 færri ferðamenn en Isavia reiknaði með

Brottfarir erlendra ferðamanna drógust saman um nærri sex af hundraði í janúar.

Ferðafólk á Íslandi var færra í janúar en á sama tíma í fyrra. Mynd: Micolas J Leclercq

Fyrir viku síðan birti Isavia sína árlegu ferðamannaspá og gerði hún ráð fyrir 455 færri ferðamönnum í janúar í samanburði við sama tíma í fyrra. Að fjöldi erlendra flugfarþega sem færi í gegnum talninguna við vopnaleitina færi niður í 147.114 sem jafngildir samdrætti upp á 0,3 prósent.

Þó spá Isavia hafi verið kynnt tveimur dögum fyrir mánaðamót þá reyndist hún fjarri raunveruleikanum því samkvæmt nýbirtri talningu Ferðamálastofu og Isavia þá nam samdrátturinn 8.514 erlendum ferðamönnum í nýliðnum mánuði. Minnkunin nemur þá 5,8 prósentum.

Líkt og Túristi greindi frá í gær þá fækkaði áætlunarferðum til útlanda frá Keflavíkurflugvelli um aðeins 1 prósent í janúar. Túristi hefur þó bæði hér á síðunni og annars staðar líst því yfir að samdrátturinn í komum ferðamanna hingað til lands gæti orðið mun meiri en Isavia gerir ráð fyrir. Er þá horft til erfiðleika WOW air, pressu á hækkandi fargjöld og þeirrar staðreyndar að erlend flugfélög hafa litlu bætt við Íslandsflug í ár. Hlutfall skiptifarþega hjá íslensku flugfélögunum gæti vegið upp á móti þessum neikvæðu þáttum.

Þó erlendu ferðafólki hafi fækkað í síðasta mánuði þá var fjöldinn engu að síður nokkru meiri en í janúar 2017. Og samtals komu fleiri í nýliðnum mánuði en samanlagt í janúar 2015 og 2016.