Ágæt bókunarstaða en reksturinn þungur

Forsvarsmenn tveggja af stærstu bílaleigum landsins segja offramboð ríkja á markaðnum og endurnýjun sé of hæg vegna breytinga á vörugjöldum. Óvissan í ferðaþjónustu er líka mikil.

island vegur ferdinand stohr
Mynd: Ferdinand Stohr / Unsplash

„Leiguverð á bílaleigum hefur verið of lágt síðustu tvö ár og verðlagið stendur almennt ekki undir rekstrinum. Skýrsla KPMG um ferðaþjónustuna frá því í haust sýnir þetta svart á hvítu, samdráttur í afkomu bílaleigu var mikill á milli áranna 2016 og 2017,“ segir Garðar Sævarsson hjá Enterprise bílaleigunni. Að hans mati skrifast þessi staða meðal annars á offramboð á bílaleigubílum. „Flotinn árið 2018 var um 27  þúsund bílar en þyrfti að vera minni eða svipaður og árið 2016 sem var almennt síðasta góða rekstrarárið fyrir bílaleigur.“

Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar-Höldur, er á sömu skoðun. „Það  eru of margir bílar á markaðnum en leigufyrirtækjum hefur fækkað sem betur fer og vonandi dregur úr framboðinu.“ Steingrímur segir reksturinn þungan og bílaleigur berjist við að vera réttum megin við núllið. „Síðasta ár var erfitt rekstrarlega séð og það stefnir ekki í breytingar í ár. Krónan er ennþá of sterk þó hún hafi veikst undanfarið.“

Steingrímur bætir því við að það hafi orðið gríðarlegur samdráttur í endurnýjun á bílaleigubílum og hún sé minni en þörf væri á. „Þetta skrifast að mestu á hækkun vörugjalda sem eykur gríðarlega fjárþörf, fjárbindingu og afföll.“ Að mati Garðars þá hefur þessi fyrrnefnda hækkun vörugjalda jafnframt áhrif þau áhrif að það hægist á endurnýjun og að umhverfisvænni og öruggari bílar skili sér seinna  inn á eftirmarkað.

Að sögn þeirra Garðars og Steingríms þá er bókunarstaðan ágæt miðað við árstíma en „verkföll í mars gætu rústað henni,“ segir Steingrímur og veltir fyrir hvert gengi krónunnar verði þá. Við þetta bætist óvissan um WOW air sem gerir áætlunaragerð erfiða að sögn Garðars.