Arion afskrifaði aukalega 360 milljónir króna vegna flugfélaga

Gjaldþrot Primera air var ekki eini skellurinn sem Arion banki tók vegna flugfélaga í fyrra. Um síðustu áramót átti bankinn útistandandi 4 milljarða króna hjá fyrirtækjum í flugrekstri.

WOW air og Primera Air hafa bæði verið í viðskiptum við Arion banka. Mynd: London Stansted

Þeir Andri Már Ingólfsson og Skúli Mogensen kepptust báðir við það í lok síðasta sumars að halda flugfélögum sínum á lofti. Andri Már var í leit að fé sem átti að tryggja rekstur Primera Air þangað til hagnaður af flugvélaviðskiptum yrði innleystur og Skúla vantaði fjármagn fram að skráningu WOW air í kauphöll.

Um miðjan september tilkynnti Skúli að hann honum hefði tekist að safna um 8 milljörðum króna í skuldabréfaútboði WOW en hálfum mánuði síðar varð Primera Air gjaldþrota. „Það er ljóst að Primera Air fékk ekki fyrirgreiðslu,” sagði Andri Már, í viðtalið við Túrista, stuttu eftir gjaldþrotið, aðspurður um orðróm þess efnis að Arion hefði valið WOW framyfir Primera Air. Bæði flugfélög voru þá í viðskiptum við bankann og tjón Arion, vegna gjaldþrots Primera Air, nam um þremur milljörðum króna líkt og kom fram í kynningu á ársreikningi félagsins sem fram fór í gær.

Þetta var þó ekki eina tap bankans af viðskiptum sínum við flugfélög í fyrra því í fyrrnefndri kynningu kemur fram að skuldabréf, sem tengist flugfélögum, hafi verið afskrifuð um 360 milljónir króna á síðasta ársfjórðungi síðasta ár. Þar með lækkuðu kröfur bankans á flugiðnaðinn úr 4,3 milljörðum niður í fjóra milljarða samkvæmt því sem fram kemur í afkomukynningu. Ekki fást upplýsingar frá Arion hvort þarna séu um að ræða kröfur á hendur WOW air að öllu eða einhverju leyti. Þess má þó geta að Icelandair er ekki í viðskiptum við bankann.

Það má því ljóst vera að mikið er í húfi fyrir eigendur Arion banka í viðræðum Indigo Partners við Skúla Mogensen um kaup á umtalsverðum hlut í WOW air. Niðurstöðu er að vænta í síðasta lagi þann 28. febrúar næstkomandi því þá rennur út sá frestur sem eigendur skuldabréfa í WOW veittu Indigo Partners til að gera upp hug sinn varðandi fjárfestingu í WOW air. Túristi hefur óskað eftir upplýsingum um frá bæði Skúla Mogensen og Indigo Partners hvort áfram sé stefnt að því að ljúka viðræðumi í síðasta lagi í lok þessa mánaðar.