Bullandi tap hjá Norwegian

Afkoma norska flugfélagsins á síðasta ársfjórðungi var margfalt verri en á sama tíma í fyrra.

norwegian vetur
Mynd: Norwegian

Rétt fyrir hádegi í dag tekur á loft frá Keflavíkurflugvelli Boeing þota Norwegian sem tekur stefnuna á Rómarborg. Þó núna séu aðeins nokkrir klukkutímar í brottför þá kostar ódýrasti miðinn aðeins 20 þúsund krónur. Það er ekki mikið fyrir fimm klukkutíma flug til Ítalíu með örstuttum fyrirvara.

Þetta ódýra fargjald er hins vegar langt frá því að vera einsdæmi og það er ein meginskýringin á hinum mikla taprekstri sem einkennt hefur Norwegian síðustu misseri. Og ekkert lát er á því síðustu þrjá mánuði síðasta árs tapaði félagið að jafnaði um 469 milljónum íslenskra króna á dag samkvæmt uppgjöri sem birt var nú í morgun.

Tapið á þessu tímabili var nærri fimmfalt hærra en á sama tíma í hittifyrra og skrifast þessi slæma þróun ekki bara á mikla samkeppni og þar með lág fargjöld. Hátt olíuverð setti líka strik í reikninginn hjá norska flugfélaginu og óhagstæðir samningar um fyrirframkaup á þotueldsneyti. Seinkanir á afhendingu hreyfla frá Rolls-Royce hafa einnig valdið Norwegian tjóni samkvæmt frétt E24 í Noregi.

Ljósu punktarnir í uppfjöri Norwegian voru þeir að einingakostnaðurinn lækkaði um heil 14 prósent og tekjur af aukaþjónustu hækkuðu þónokkuð sem vegur upp á móti hinum lækkandi fargjöldum.

Norwegian flýgur ekki aðeins héðan til Rómar því félagið býður einnig upp á ferðir til Óslóar, Bergen, Alicante, Barcelona og Madrídar. Félagið hefur hins vegar lagt niður ferðir sínar hingað frá London og Stokkhólmi. Rómarflugið verður aðeins í boði út næsta mánuð.